leita

ELDRI PISTLAR

Það er alþekkt að vinátta manna stoppar ekki við flokkslínur. Þekktir menn í stjórnmálum eru þar engin undantekning. Lengi hefur verið talað um að Alfreð Þorsteinsson og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson væru svo nánir að tala mætti um Vilfreð. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í R-listanum sögðu oft þegar þeim var borið á

Ég er safnaratýpa. Það þýðir að ég er ekki mikið fyrir að láta eitthvað af hendi ef ég hef einu sinni höndlað það. Þess vegna leist mér ekki vel á það að fara í veiði þar sem ég átti að sleppa fengnum. Gamalt máltæki segir að enginn viti hvað

Seldu dýrt og fengu svo gefins. Þetta er fyrirsögn á frétt RÚV um að Finnur Árnason, forstjóri Haga, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus og Jóhanna Waagfjörð framkvæmdastjóri hefðu selt hlutabréf í Högum í október 2009 fyrir 1 milljarð til Haga skömmu áður en Arion banki yfirtók félagið. Þetta var gert


PISTLAR

19/10/2011 | 23:10

Í boði með Bensa Blöndal (BJ)
benedikt11Mig dreymdi sérstakan draum um daginn. Ég var staddur í boði, einhvers konar móttöku þar sem ég sá margt manna. Einn þeirra sem ég hitti í boðinu og sá eini sem ég man eftir var Benedikt Blöndal, frændi minn. Einhver hafði orð á því í draumnum hvort það væri ekki einkennilegt að Benedikt væri þarna í boðinu því að hann væri löngu dáinn. Það fannst mér ekki.
 
Benedikt var um tuttugu árum eldri en ég, fæddist árið 1935, fyrsta barn Kristjönu móðursystur minnar og Lárusar Blöndals. Kristjana var eldri en mamma, en hún dó ung úr krabbameini skömmu áður en ég fæddist. Benedikt var elstur fimm systkina og mér var sagt að hann hafi ætlað sér að verða arkitekt. Þegar móðir hans dó mun pabbi hans hafa beðið hann að koma heim og hann varð lögfræðingur. Það var lán fyrir lögfræðina því að hann var úrvalslögmaður, skarpur og vel að sér.
 
Þeir voru saman um lögfræðistofu nafnar mínir og frændur, Blöndal og Sveinsson. Svo bauðst Bensa Blöndal að verða partner á skrifstofu Ágústs Fjeldsted og hún var kölluð Fjeldsted og Blöndal upp á fínan móð.
 
Þó að ég væri ekki nema stráklingur á þessum árum talaði ég alloft við frændur mína og þegar símastúlkan svaraði: „Hjá Fjeldsted og Blöndal,“ bað ég um Blöndal. Væri Blöndal ekki við bað ég hana að skila því að Zoega hefði hringt. Þeim skilaboðum var alltaf svarað.
 
Við nafnarnir áttum ýmislegt sameiginlegt annað en nafnið. Til dæmis áttum við hvor sinn tíundapartinn í Sandey í Þingvallavatni, en nú held ég að þjóðlendunefnd hafi sölsað þá parta undir sig. Mamma hélt mikið upp á Benedikt og mætti alltaf í afmælið hans, sem alltaf var haldið hátíðlegt og ég fylgdi henni auðvitað þangað.
 
Seinna varð Benedikt hæstaréttardómari. Það var verðskuldaður heiður þó að mig minni að hann hafi þurft að sækja þrisvar um áður en hann hreppti stöðuna. Nafna mínum fannst Hæstiréttur ekki njóta tilhlýðilegrar virðingar í samfélaginu. Laun dómara væru lág og starfsaðstaða léleg.
 
Benedikt var ekki lengi dómari. Rúmlega þremur árum eftir að hann var skipaður í Hæstarétt var hann látinn.
 
Ég hélt ágætu sambandi við Benedikt alla tíð. Hann lét mig njóta nafns og talaði alltaf við mig sem jafningja, meira að segja þegar ég var smástrákur.
 
Kem ég nú aftur að draumnum. Ég minnist þess ekki að mig hafi nokkurn tíma dreymt Benedikt fyrr en í þetta sinn. Ekkert hafði minnt mig á hann dagana á undan. Þegar ég vaknaði var mynd hans hins vegar mjög sterk í huga mér og ég fór að hugsa um þennan ágæta frænda minn, sem dó langt um aldur fram.
 
Af einhverjum ástæðum varð mér hugsað til þess að ég væri núna á svipuðum aldri og Benedikt var þegar hann dó. Mig minnti að hann væri fæddur um 20. janúar árið 1935 og ég vissi að hann hafði dáið seinni hluta apríl 1991. Til þess að vera viss fletti ég því upp. Hann fæddist 11. janúar 1935 og dó 22. apríl 1991. Hann var 56 ára, þriggja mánaða og ellefu daga gamall þegar hann dó.
 
Þennan morgun, 15. ágúst 2011, var ég 56 ára, þriggja mánaða og ellefu daga gamall.
 
Eitt andartak var ég jafngamall þessum frænda mínum. Þess vegna mætti hann í veisluna.
 
 
Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is