leita

ELDRI PISTLAR

Ég er orðinn leiður á því að lesa blöð og horfa á sjónvarp þessa dagana. Þar er ekki sagt margt sem maður var ekki löngu búinn að fá leið á. Fólk sem ekki hefur kynnt sér nýja fjölmiðlafrumvarpið er jafnmikið á móti því eins og hinu, sem það las ekki

Ég geri ráð fyrir að Bjarni Benediktsson verði kosinn nýr leiðtogi Sjálfstæðis- flokksins um helgina. En hans bíður tröllvaxið verkefni; að byggja flokkinn upp og auka vinsældir hans í mjög svo stuttri kosningabaráttu. Flokkurinn verður helst að fá 35% fylgi í komandi Alþingiskosningum svo Bjarni tryggi sig í sessi

Nýlega áskotnuðust mér nokkrar bækur. Kannski ekki í frásögur færandi því að ég er alltaf að eignast bækur. Að undanförnu hef ég meira að segja verið duglegur að lesa bækur sem ég hef eignast. Nú hitti ég á eina af þeim bókum sem ég hafði aldrei heyrt um heldur


PISTLAR

30/08/2007 | 17:47

Ólætin í miðborginni (JGH)

Sjálfsagt eru ekki til neinar töfralausnir við ólátunum í miðborg Reykjavíkur um helgar. Þó blasir við sem fyrsta verk að efla löggæsluna og að vígbúin lögreglan taki ólátaseggina úr umferð og komi þeim á bak við lás og slá. Það þarf að taka árásargjarna kókaníhausa, sem ráðast á samborgara sína án nokkurs tilefnis, úr umferð. Þeir eru stóri vandinn. Hins vegar er sóðaskapurinn og hávaðinn af ósköp venjulegu fólki, sem er að skemmta sér í miðborginni fram eftir nóttu, auðvitað hvimleiður en hann er ekki eins mikið mál og árásirnar. Það eru þær sem verður að stöðva. Það verður alltaf einhver hávaði (misjafnlega mikill þó) þar sem fólk situr að svumbli, hvort sem það er í miðborginni eða á tjaldsvæðum á útihátíðum.

Í sjálfu sér hljómar það undarlega að fámenn eyþjóð, sem telur um 300 þúsund manns og býr norður í Ballarhafi, glími við þann vanda að allt að 15 til 20 þúsund manns safnist saman um hverja helgi á götum miðborgarinnar og skemmti sér þar misjafnlega ölvaðir. Hvernig væri ástandið ef Reykjavík væri stórborg? Reykjavík hefur engu að síður fengið á sig þann stimpil í heimspressunni að þar séu þúsundir manna sauðdrykknir úti á lífinu fram undir morgun um helgar. Auðvitað eru skreytingar í þessari lýsingu en litlu er samt logið nema því þá helst að obbinn af fólkinu er ekki sauðdrukkinn og ekki til neinna vandræða. Það eru fáir slarkarar sem koma óorði á samkomuna.

Það hefur verið rætt um að það sé meiri sóðaskapur og hávaði í miðborginni þetta sumarið en oftast áður. Það hefur m.a. annars verið rakið til reykingabannsins, sem tók gildi í sumar, og hefur leitt til þess að fólk stendur í hópum fyrir utan veitingastaðina í stað þess að vera innandyra. Þetta truflar heimilisfriðinn og heldur vöku fyrir þeim sem næstir búa. En hvernig getur einhverjum dottið í hug að búa alveg ofan í anddyri á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur og halda að þar sé enginn hávaði um helgar? Það er talsverð bjartsýni.

Margir hafa orð á því að skemmtistaðirnir séu opnir of lengi, þ.e. að „djammið standi of lengi“. Sagt er að margir séu í leigubíl á leið í fjörið niðri í bæ að skemmta sér „þegar þeir ættu í raun að vera á heimleið“. Það er eflaust ein lausn á vandanum á loka skemmtistöðunum fyrr á nóttinni. Það segir einhvers staðar að hætta skuli leik þegar hæst stendur. Er það svo flókið að finna það út að mestu drykkjulætin eru þegar fólk er orðið mjög drukkið!!? Sjálfsagt er hægt að komast að því með hávaðamælingum að það sé upp úr klukkan eitt til tvö á nóttinni og því sé best að skella í lás á skemmtistöðunum klukkan þrjú.

Það er örugglega líka hluti af vandanum að leigubílar eru of fáir í kraðakinu á nóttunni um helgar og að fyrir vikið þurfa sveittir gleðipinnar að hírast í miðbænum lengur en þeir sjálfir kæra sig um - glorhungraðir og glefsandi í samlokur, pylsur og kafbáta með miklum tilþrifum. Þessir gleðipinnar eru víst ekki mestu snyrtipinnar í heimi. En er þá ekki ráðið að fjölga leigubílum með einhverjum hætti þessar tvær nætur um helgar svo mannskapurinn komist fyrr heim? Eflaust - en er það vilji leigubílstjóra sem óttast offramboð leigubíla og segja ævinlega að það sé fremur dræmt að gera nema yfir blánóttina um helgar.

Þá eru þeir nokkrir sem telja að vandinn í miðbænum stafi af því að „nánast allir“ skemmtistaðir borgarinnar eru í miðbænum. Þetta er mikil ályktun! En hvert á að flytja þá? Í úthverfin? Er þá ekki bara verið að dreifa vandanum á milli hverfa þannig að blá-blikkandi pólitíið verður á sífelldum þönum á milli hverfa?

1)Að fjölga í lögregluliðinu í miðborginni um helgar og taka kókaínhausana úr umferð; 2) Leyfa reykingar aftur innandyra á skemmtistöðum; 3) Fjölga leigubílum um helgar; 4) Stytta opnunartíma skemmtistaða og loka þeim klukkan þrjú um helgar.

Ef til vill yrðu þessar leiðir - knúnar fram af handafli og tilskipunum  - til að bæta kúltúrinn í miðborginni um helgar. En hávaðalaus og líflaus verður borgin auðvitað aldrei um helgar - og á ekki að verða það. En kannski borgarstjóri vilji bæta enn einni leiðinni við; „norðurleiðinni“, og banna fólki á aldrinum 18 til 23 ára að vera í miðborginni um helgar. Það er hópur sem mannfræðingar þurfa að rannsaka betur.

Eitt er víst; kókaínhausana þarf að taka úr umferð í miðborginni. En aðra þarf bara að sussa á og kæla aðeins niður um helgar – en þá byrja menn ekki á því að taka kælana í burtu. 

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is