leita

ELDRI PISTLAR

Núna ætlar alþingi að setja lög sem eru beinlínis brot á EES-samningi. Það ætlar að framlengja gjaldeyrishöftin um fjögur ár eða til ársins 2015. Þessi ákvörðun kom svo sem ekki á óvart; hún lá í loftinu. Það verður að teljast merkilegt að alþingi Íslendinga setur sérstök lög

Sumir segja að Snjáldra eða Facebook sé menningarspillir og tímaeyðsla. Ég segi á móti: Hvað á maður að gera við tímann annað en að eyða honum? Smá innskot: Nýlega las ég um uppgötvun Einsteins á því að tíminn þyrfti ekki að vera fasti. Þetta mun hafa verið kveikjan að afstæðiskenningunni

Það er ljóst að stjórnarandstöðuflokkar telja það vænlegt að lýsa andstöðu við kvótakerfið og sú hugmynd sem mests fylgis þeirra nýtur er svonefnd fyrningaleið. Andstaðan við kvótakerfið kemur ekki til fyrst og fremst vegna þess að það sé slæm leið til þess að vernda fiskistofna, en til þess var það


PISTLAR

13/04/2012 | 18:27

Með tilliti til hins gagnstæða (JGH)

jong-2011Ég minnist þess þegar ég var í háskólanum að ég fékk eitt sinn prófspurningu, sem var nokkuð löng og flókin, og endaði á orðunum: „Lýstu þessu með tilliti til hins gagnstæða.“ Það var og, sagði ég við sjálfan mig. Þessi spurning í prófinu rifjast upp þegar lesið er um eftirfarandi:

1)
Að Már seðlabankastjóri standi í málaferlum við Seðlabankann.

2)
Að forsætisráðherra finnist það í lagi að utanríkisráðherra leyni hann og utanríkismálanefnd upplýsingum.

3)
Að ESB sækist eftir því að koma að málarekstri ESA gegn Íslandi vegna Icesave á sama tíma og Ísland sækir um ESB.

4)
Að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, njóti minnsta fylgis á meðal vinstrimanna í komandi forsetakosningum.

5)
Að ríkisstjórnin geri atlögu að kvótakerfinu sem kom í veg fyrir hrun fiskstofna og byggir þá hægt og sígandi upp.

6)
Að Landsvirkjun telji best að leggja rafmagnssnúru til Evrópu og selja rafmagnið þar sem hrávöru í stað þess að nota það hér heima til uppbyggingar fyrir íslenskan atvinnurekstur.

7)
Að Jóhanna forsætisráðherra komi fram í útvarpi og segist ekki hafa vitað af bréfi framkvæmdastjórnar ESB um að óska eftir að koma að Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum fyrr en hún hlustaði á útvarpsfréttir að kvöldi miðvikudags 11. apríl, en bréfið barst Össurri utanríkisráðherra 27. mars, eða fyrir hálfum mánuði, og þar með ríkisstjórninni.

8)
Að utanríkisráðherra og forsætisráðherra telji það stórkostlegt „tækifæri“ fyrir Ísland að fá ESB gegn sér í Icesave-málinu vegna þess að þá gefist Íslendingum kostur á að kynna málstað sinn betur.

Þegar Íslendingar höfnuðu Icesave-samningum völdu þeir dómstólaleiðina. Við kusum að málið færi fyrir dómstóla og að Bretar og Hollendingar þyrftu að fá úr því skorið á þeim vettvangi að ríkisábyrgð væri á Innstæðutryggingasjóðnum – og að allir einkabankar í Evrópska efnahagssvæðinu væru með öryggisnet skattborgra strengt undir sig þegar kæmi að innlánum.

Þetta er prinsippið sem tekist er á um í þessu dómsmáli sem rekið verður fyrir íslenskum dómstólum.

Aðkoma ESB að málarekstri ESA gegn Íslendingum skiptir að mínu mati ekki sköpum varðandi niðurstöðuna úr þessu dómsmáli nema að það verður meiri þungi í henni af ESA. Þrotabú gamla Landsbankans mun borga Icesave-reikningana að fullu þannig að í reynd snýst dómsmálið fyrst og fremst um vaxtagreiðslur – og þær himinháar.

Hvort sem það er rétt eða rangt að blanda saman aðildarviðræðum Íslendinga að ESB við þetta dómsmál þá tel ég að þetta nýjasta útspil ESB fari illa í flesta og dragi úr áhuga á ESB-aðild.

Raunar held ég að ríkisstjórninni sjálfri hafi tekist að halda þannig á málum að nánast engar líkur eru á að samningur sé í augsýn og að kosið verði um þetta mál.

Það kom mér nokkuð á óvart að Þóra Arnórsdóttir fréttamaður væri með jafnmikið fylgi og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, samkvæmt könnun Fréttablaðsins í morgun. Þá átti ég von á því að Herdís Þorgeirsdóttir væri með meira fylgi og þá á kostnað Þóru.

Það er ómögulegt að spá um úrslit forsetakosninganna sem fram fara í endaðan júní. Eftir því sem framboð Þóru verður meira tengt við Samfylkinguna, ríkisstjórnina og vinstri menn þá held ég að það skaði hana.

Áhrifin gagnvart Ólafi gætu orðið þau að eftir því sem framboð hans verður meira tengt við andúð á ríkisstjórninni og helstu málefnum hennar þá græðir hann líklegast á því.

Erfitt er líka að átta sig á hvaða áhrif yfirlýsing eiginmanns Þóru, Svavars Halldórssonar fréttamanns, í yfirgripsmiklu viðtali í Fréttatímanum við þau hjón í morgun hafi. Í viðstalinu kemur fram að Svavar hafi hlotið dóm og tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að berja mann eftir rifrildi um stelpu á sveitaballi fyrir um tuttugu árum.

Þegar könnunin Fréttablaðsins var gerð hafði þessi yfirlýsing Svavars ekki komið fram. Að slagsmál fyrir tuttugu árum hafi áhrif? Ég veit það ekki, kannski skaðar það ekki, en varla getur það verið Þóru til góðs? Eða hvað?

Fáir sögðust ætla að skila auðu í könnun Fréttablaðsins. Í forsetakosningunum árið 2004 þegar Baldur Ágústsson bauð sig fram gegn Ólafi Ragnari var nokkuð um að sá kostur væri valinn.

Í kosningunum 1996 fékk Ólafur Ragnar 41,1% atkvæða, Pétur J. Hafstein 29,6%, Guðrún Agnarsdóttir 26,4% og Ástþór Magnússon 2,6%.

Loks er það fréttin um að sæstrengur til Evrópu sé spennandi og hagvæmur kostur fyrir Landsvirkjun vegna þess að stóriðjan á Íslandi greiði 3,3 kr. á hverja kílówattsstund en íslensk heimili 11,3 krónur.

Auðvitað á Landsvirkjun að fá sem mest fyrir sitt rafmagn og engin ástæða til að gefa stóriðjunni orkuna. En hvað með öll þau störf sem stóriðjan veitir og alla þá óbeinu veltu sem fæst vegna tilurð margra fyrirtækja í iðnaði sem vinna fyrir álfyrirtækin og stóriðjuna?

Er það einskis metið í svona verðsamanburði þegar kemur að arðinum fyrir þjóðarbúið.

Það er föstudagur og ekki að koma helgi - auðvitað er þetta með tilliti til hins gagnstæða.

Jón G. Hauksson

jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is