leita

ELDRI PISTLAR

03. september | Mínir menn (BJ)
Í íþróttum eru úrslit oftast ljós í leikslok. Að minnsta kosti lýkur hverju móti með því að einn sigurvegari stendur upp í lokin. Samt halda menn áfram að rífast um löngu liðin atvik og útskýra að í raun og veru hefðu úrslit átt að vera allt önnur. Enn eru margir

Ég hvet alla til að mæta á kjörstað á morgun og merkja við: „Nei, þau eiga að falla úr gildi.“ Þetta er hins vegar mun stærra NEI en margur heldur. Skilaboðin eru þessi: „Við látum ekki Breta og Hollendinga kúga okkur!“ Heimsbyggðin fylgist með og tækifærið er núna. Útskýrum

Það hefur verið stormasamt þessa viku og þá eðlilega fjúka margir; hvort heldur þeir eru í flokkum eða eftirliti fjármála. Það ætti ekki að koma á óvart að stormurinn fýkur, það er eðli hans, samt kemur það á óvart í þetta skiptið. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, oftast kallaður Siggi


PISTLAR

30/04/2007 | 06:42

Allar leiðir liggja til Rómar (BJ)

Ég fór nýlega að hitta nafna minn 16. í Róm. Það var fróðleg og skemmtileg heimsókn þótt minna yrði úr spjalli hjá okkur guðsmönnunum en ég hefði viljað. Að mörgu leyti finnst manni eins og maður sé að líta inn í fortíðina.

Við flugum gegnum London og þar hófst hin eiginlega Rómarferð. Á flugvellinum vorum við afgreidd af ungri stúlku sem greinilega var mjög vön að afgreiða ferðamenn frá afskekktum svæðum. Hún byrjaði á því að spyrja: „Hvort ykkar er að ferðast?“ Ég veit ekki hvort hún hefur talið að ég væri burðarkarl hjá Vigdísi eða hún sérlegur aðstoðarmaður minn, bæri fyrir mig flugmiða og vegabréf. Eftir nokkra stund tókst okkur að koma henni í skilning um að við ætluðum bæði. Þá spurði hún hvert förinni væri heitið. Þetta var sérstæð spurning vegna þess að yfir afgreiðslunni stóð að þetta væri flugið til Rómar, auk þess sem það stóð á miðunum. Eftir nokkra umhugsun svöruðum við: „Róm.“ Hún horfði á okkur eins og hún vorkenndi okkur svolítið og spurði svo alveg eins hvert við ætluðum. Eftir enn lengri vangaveltur svaraði Vigdís: „Roma.“ Kannski var þessi kona ítölsk og skildi ekki ensku útgáfuna á borgarnafninu.

Konan lét ekki deigan síga og spurði en hver væri endanlegur áfangastaður. Ég velti því fyrir mér hvort maður ætti að gerast heimspekilegur, en yfirleitt finnst fólki á flugvöllum lítið gaman af heimspeki svo að ég sat á mér. Loks gátum við komið henni í skilning um að við ætluðum til Rómar. Þá spurði hún hvaðan við kæmum. Nú var þetta orðið skemmtilegt. Næst spyr hún væntanlega: „Hver er tilgangur lífsins?“ hugsaði ég. Nei, ekki kom það heldur hvað hverjir væru einkennisstafir Reykjavíkur. Ég svaraði „REK“ og Vigdís „KEF“ og það reyndist rétta svarið.

Tók nú við rannsókn mikil þar sem stúlkan rýndi í tölvuna og gat lítið við okkur spjallað. Eftir drykklanga stund spyr hún hversu lengi við ætlum að vera á Ítalíu. Þetta var eðlileg spurning vegna þess að á farmiðanum fyrir framan hana stóð að við ættum flug til baka næsta sunnudag. Við svöruðum að við ætluðum að vera þrjá daga. Þá horfði hún á okkur með umhyggju og sagði: „Þið passið ykkur á því að þið megið ekki vera lengur en þrjá mánuði.“ Eftir nokkra útreikninga í huganum sagði ég henni að ég teldi að dvöl okkar rúmast innan þriggja mánaða og kvöddum við þar konu þessa og er hún úr sögunni.

Um Róm er ekki mikið að segja. Húsagerðarlist virðist ekki eiga vel við Ítali. Mest af húsunum sem við sáum var meira og minna hrunið. Við fórum til Pompei einn daginn. Til þess að komast þangað þurftum við að leigja okkur bíl. Fabio á Hertz tók þeirri málaleitan vel. Eftir nokkra leit tókst honum að finna lítinn bíl fyrir okkur. Reyndar var hann bara tveggja manna og ekki með neinu þaki svo að við fengum góðan afslátt. Fabio var ekki mikið að spyrja um tilgang lífsins enda lítill tími til þess því að stöðugt var verið að hringja í hann. Stundum í farsímann og þess á milli í skrifstofusímann. Alltaf svaraði hann jafnfumlaust. Einu sinni glumdi við hringing og hann greip farsímann, en ekki var það hann sem lét í sér heyra og með því að líta á skrifstofusímann sást að hann var líka hljóður. Fabio greip þá stimpilinn og horfði á hann nokkra stund eins og til þess að ákveða sig hvort hann ætti að svara í hann, en lagði hann svo frá sér.

Ekki komust menn spönn frá rassi nema með leiðsögumönnum af innlendum uppruna, þó að við værum með ágætan íslenskan fræðaþul. Sá ítalski gekk með okkur, keypti miðana í Coloseum og gekk svo áfram með okkur þangað til leiðir skildu. Sagði ekki orð allan tímann nema við íslenska leiðsögumanninn. Á Ítalíu passa menn sína menn.

Af fundi okkar nafnanna er margt að segja en af því að við ræddum saman á Latínu á ég ekki von á að lesendur skilji mikið í því sem okkur fór á milli. Ég kann ekki Latínu og hef ekki hugmynd um hvað sagt var.

Á flugvellinum á bakaleiðinni var okkur safnað saman í rútu við flugstöðina og biðum í henni í 20 mínútur þar til allir voru komnir. Svo ók hún í 23 metra að flugvélinni sem var þar við hliðina á útganginum. Bílstjórar þurfa líka að hafa eitthvað að gera.

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is