leita

ELDRI PISTLAR

11. apríl | Undir áhrifum (BJ)
Í Lesbók Morgunblaðsins var um helgina opna þar sem átta listamenn sögðu frá því hverjir hefðu verið áhrifavaldar í lífi sínu. Greinin var skemmtileg og varð til þess að ég fór að hugsa: „Hverjir skyldu hafa verið áhrifavaldar í mínu lífi?“ Spurningin er alls ekki einföld. Ekki þarf að

Okkur er kennt að hér á landi hafi verið nokkur stórskáld. Meðal þeirra eru Einar Benediktsson og Gunnar Gunnarsson. Pistlahöfundur verður að gera þá játningu að hafa aldrei náð að hrífast af Gunnari sem skáldi. Í ljósi þess ég fann um daginn grein þar sem Einar Benediktsson lýsti sömu skoðun

Í morgunkaffinu heima var ég spurður að því hvað mér þætti um að mótmælendur, sem ruddust inn í Alþingishúsið í Búsáhaldabyltingunni og brutu af sér, hefðu verið ákærðir. Ég sagði sem var að ég væri ekki klár á því hvernig ætti að taka á þessu máli. Ákæran væri réttmæt


PISTLAR

16/03/2012 | 14:45

Harrý og Heimir hlusta á saksóknara (JGH)

jong-2011Gaman að sjá ykkur öll sömul. Tókstu eftir því Harrý að Bjöggi notaði sama orðalagið og við þegar hann kom hingað í Landsdóm? Er það ekki svolítið spúkí? Önnur vika er að baki hjá Harrý og Heimi í Landsdómi. Eftir málflutning Sigríðar saksóknara eru þeir núna lagstir í málrannsóknir og málfræði; sérstaklega kanna þeir viðtengingarháttinn ef og hefði. Auðvitað eru þeir ekki óvanir málrannsóknum, þeir eru jú einkaspæjarar. Þeir fengu sína móðurmálskennslu – en þeir játa, eiðsvarnir, að þeir hafa aldrei unnið á stofnun Árna Magnússonar. Þá hafa þeir lagst í sagnfræðilegar rannsóknir á því hvaða menntun forsætisráðherrar Íslands frá heimastjórninni 1904 hafa haft og fundið út að 16 af 30 forsætisráðherrum frá heimastjórninni eru lögfræðingar. Það segir sig sjálft..við erum í Landsdómi.

Heimir: Þetta er menntað sakamál. Alvarleiki glæpsins fer eftir menntun. Það er meiri glæpur ef hagfræðingur heldur ekki fund en t.d. lögfræðingur.

Harrý: Já, hagfræðin kemur sterk inn – það má skilja Sigríði saksóknara sem svo að hagfræðin sé yfirburðagrein og vísindi vísindanna. Hvers vegna fórum við ekki í hana?

Heimir: Það er gott að vera vitur eftir á, karlinn minn. Um það snýst þetta mál.

Fréttamaður CNN: Út af orðum saksóknara, hvaða menntun þarf forsætisráðherra að hafa?

Harrý: Enga. Sko forsætisráðherrastarfið er eina djobbið í landinu sem ekki er auglýst og hvað þá að beðið sé um hæfnisvottorð. Eða segir eitthvað um það í stjórnarskránni? Ég sé það ekki. Er einhver dómnefnd sem metur hæfi umsækjenda? Hefur þú séð eitthvað slíkt, Heimir?  Ég held ekki. Það er ekki sótt um þetta starf. Því er úthlutað eftir á og það eftir talsverð hrossakaup.

Heimir: Tókstu eftir því  að Sigríður saksóknari sagði að Geir vissi, átti að vita, hefði mátt vita og hefði vitað margt sem hann átti alls ekki átt að vita – en hefði samt verið trúað fyrir...

...Hún sagði að hann hefði átt að grípa í taumana vegna þess að á honum hefði hvílt „athafnaskylda“...svo átti hann að vita heilmargt vegna þess að hann er hagfræðingur en ekki flugfreyja eða drop-out úr skóla.

Harrý: Bíddu, ætti ekki einmitt að vera flugfreyja í djobbinu, hún hefði sagt liðinu að spenna beltin og að þetta yrði hörð lending... að stefnuljósið blikkaði örar og væri að bila.

Heimir: Talaðu almennilega íslensku. Ekki nota orð eins og djobb og drop-out.

Harrý: Sjáðu til...„athafnaskylda“...þetta er nýtt orð...ég nota þau gjarnan eftir að ég er nýbúin að læra þau. Þannig reynir maður að sýnast vita eitthvað.

Heimir: Vertu ekki svona upp mér þér þótt við vitum örlítið um viðtengingarháttinn eftir einn dag í starfskynningu á Íslenskri málstöð.

Harrý: Við erum í klípu, karlinn, miðað við það sem við sögðum í síðasta pistli. Sigríður saksóknari segir að fráleitt sé að álykta sem svo að ákæra hennar gangi út á að Geir hefði á einhvern hátt getað „afstýrt hruninu“.

Heimir: Út á hvað gengur ákæran þá?

Harrý: Hún segir að þetta snúist fremur um að farist hefði fyrir hjá Geir að „afstýra tjónshættu“.

Heimir: Jááá...ég skil...afstýra tjónshættu. Jááá...þetta snýst um tryggingasvik. En það var enginn frá tjónadeild Sjóvár kallaður til. Tókstu eftir því að ég notaði r í eignarfallinu; Sjóvár. Góð íslenska, nöfn fyrirtækja beygjast en eru ekki bara höfð í nefnifalli.

Harrý: Hvernig gat hann „afstýrt tjónshættunni“ nema að afstýra fyrst hruni bankanna?

Heimir: Heyrðu Harrý...við Íslendingar notum heyrðu mikið...ég sé hérna í bókinni þetta sem þú nefndir áðan: Að vera vitur eftir á....Er þetta málsháttur eða orðatiltæki? Lífspeki eða mállýska?

Harrý: Nei, mállýska er allt annað. Flámælgi er t.d. mállýska. Austfirðingar segja t.d. hebði í staðinn fyrir hefði í viðtengingarhætti. Það er stöð en ekki stuð á Stöðvarfirði.

Fréttamaður CNN: Saksóknari segir Geir hafa haft ýmis úrræði. Hver voru þau? Og svarið mér á hreinni íslensku, mannamáli.

Heimir: Sko...hann hélt enga fundi.

Fréttamaður CNN: Áttu við í Bandaríkjunum? Ég vissi að Bernanke seðlabankastjóri svaf ekki út af Íslandi. Til að koma í veg fyrir bankahrunið á Íslandi hefði Geir þurft að koma í veg fyrir fall Leaman Brothers og allra hinna  bankanna í Evrópu og Bandaríkjunum sem fóru á hausinn þótt sumum væri bjargað.

Harrý: Hann hélt enga formlega fundi...ekki einu sinni þótt Gestur Jónsson hringdi fyrir hönd Jóns Ásgeirs og skipaði fyrir um að Samfylkingin ætti fulltrúa á hugsanlegum fundum.

Fréttamaður CNN: Verður hann þá sakfelldur fyrir að halda enga fundi?

Harrý: Sjáðu til...hann hefði átt að halda ríkisstjórnarfundi þar sem fyrsta mál á dagskrá væri fyrirsjáanlegt hrun bankakerfisins sem og alþjóðlega bankakerfisins.

Heimir: Heyrðu...en hefði hann þá ekki búið til áhlaup á bankana og gert þá gjaldþrota á tíu mínútum?

Harrý: Jú...en hann hefði þá að minnsta kosti haldið fundi, upplýst eitthvað sem hann hefði mátt vita, átti að vita, vissi sennilega og þannig „afstýrt tjónshættunni“. Breytir engu þó hann hefði sett bankana á hausinn með því en Sigríður segir hrunið núna algjört aukaatriði. Glæpurinn gangi út á að „afstýra ekki tjónshættu“.

Fréttamaður CNN: Hægan drengir, átti hann þá að „afstýra tjónshættunni“ fyrir erlendu bankana? Urðu þeir ekki fyrir mestu tjóni? Töpuðu þeir ekki 10 þúsund milljörðum á að lána Íslendingum?

Heimir: Nei...það er allt annað mál. Við erum að tala um Íslendinga, auðvitað. Þetta mál snýst um Íslendinga og íslensku.

Harrý: Sko...Geir átti að biðja alla þá sem tóku lán í bólunni að skreppa...ég meina að skreppa saman. Þófna, eins og Austfirðingar segja. Hann átti að banka upp á hjá bönkunum og biðja þá vinsamlegast um að minnka og selja eignir sínar, sem eru mjög flókin útlánasöfn.... Biðja öll einkafyrirtækin í landinu að selja eignir sínar, minnka og segja upp fólki...
...Biðja þjóðina, alla einstaklinga, heimilin, fjölskyldurnar um að minnka við sig í húsnæði, selja og greiða upp skuldir sínar og vera kvitt við guð og menn. 

Allir vissu og máttu vita að best hefði verið að minnka og greiða skuldir sínar. Þannig hefði Geir „afstýrt tjónshættunni“ og hugsað meira um þjóðina, sem sá ekkert og heyrði ekkert, fremur en að bíða eftir símtali og dulmálslykli frá herráðinu og hershöfðingjanum hans Tryggva Páls og þjóðaröryggisráðinu hennar Kristínar Heimis.

Heimir: Gleymdu því ekki að á Geir hvíldi „athafnaskylda“ en alls ekki skylda til að „afstýra hruninu“. Þú verður að vita um hvað málið snýst, Harrý.

Harrý: Já, blikkuðu ekki einmitt á þessum tíma öll viðvörunarljós, stefnuljós og vasaljós um að allar lánalínur í heiminum væru þornaðar, enginn treysti neinum lengur og enginn lánaði lengur neinum neitt... og hvernig áttu allir að geta selt eignir nema að hinu megin væru kaupendur? Hverjir áttu að kaupa ef allir áttu að selja og minnka við sig og enginn lánaði neinum neitt?

Heimir: Já, og ef allir hefðu selt á sama tíma þá hefði orðið verðfall á Íslandi. Hefði það „afstýrt tjónshættunni“...ég er ekki viss um það...og Geir var heldur ekki viss þótt hann vissi og hefði mátt vita – og léti Björgvin alls ekki vita.

Harrý: Ég er viss um að allir hefðu fengið nóg af Geir...ef og hefði hann skipað öllum að selja og borga upp lán. Hann hefði örugglega verið talinn ofvirkur og einhver hefði sagt: Ekki meir Geir. Það var það sem þeir sögðu á sínum tíma um plötuna hans Geirs Ólafssonar...ég er að tala um Frankie boy. En Haarde getur að vísu líka sungið.

Heimir: Talandi um lög og tónlist. Gleymdu því ekki að hann setti neyðarlögin sem voru skjaldborg um Ísland. Innstæðueigendur urðu að minnsta kosti ekki fyrir tjóni. Hugsaðu þér ef allt lausafé fyrirtækja og heimila hefði horfið á einni nóttu. Þá hefði enginn fengið útborgað um mánaðamótin.

Harrý: Já, og gleymdu ekki greiðslukerfinu, það hrundi ekki. Hvað ef öll Visa-kortin hefðu hætt að virka og enginn hefði getað rennt kortum. Það hefði orðið innbrotafaraldur eftir viku og fólk hefði orðið að stela sér til matar. Hefði það „afstýrt tjónshættunni“?

Fréttamaður CNN: Strákar, það virðist vega mjög þungt hjá saksóknara að Geir sé hagfræðingur.

Heimir: Já, og einmitt sem hagfræðingur hefði hann átt að vita og mátt vita heilmargt sem almúginn, lögfræðingar og verkfræðingar gætu ekki vitað og vilja ekki vita. 

Harrý: Þú ert flottur í viðtengingarhættinum, Heimir.

Heimir: Samt hefur bara einn hagfræðingur verið forsætisráðherra á Íslandi.

Harrý: Hvað með Denna...nei sorrí, Big Red var verkfræðingur, og Nonni Þorláks líka. Steingrímur J. er jarðfræðingur og lifir í fortíðinni...grefur upp og stingur höfðinu í sandinn...hann er að vísu ekki forsætisráðherra þótt hann haldi það.

Heimir: Ertu einhverju nær, Harrý, eftir að hafa hlustað á saksóknara og fjörutíu vitni en ekkert þeirra segist hafa orðið vitni að glæp Geirs?

Harrý: Tókstu eftir því að talnalásinn á töskunni hjá Siggu saksóknara stóð á sér í Landsdómi og henni gekk illa að opna töskuna með ákærunni...segir það okkur eitthvað Heimir, einhver forlög...?

Heimir: Jaa...Þetta ef og hefði Harrý...aðeins of mikill viðtengingarháttur. Leggðu nú frá þér orðabókina Harrý.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is