leita

ELDRI PISTLAR

04. nóvember | Allt vill lagið hafa (BJ)
Mamma hélt alltaf að við bræðurnir værum miklir klaufar og lítið gagn að okkur til heimilisverka. Ástæðan var sú að ef eitthvað fór úrskeiðis heima gerði pabbi við það og enginn annar komst að. Mér fannst engin ástæða til þess að blanda mér í það ef pabbi hafði gaman

DAVÍÐ ODDSSON ER fæddur sigurvegari í stjórnmálum. Hann er einn hinna stóru foringja í Sjálfstæðisflokknum og skipar sér þar á bekk með Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni. Líklegast er Davíð sterkasti foringi flokksins frá upphafi. Það er samt alltaf erfitt að bera saman sterka foringja frá mismunandi tímum og

21. apríl | Kænugarður (BJ)
Við flugum frá Sankti-Pétursborg með gripaflutningavél. Að minnsta kosti var lyktin eins og í hesthúsi. Bakið í sætunum var þannig að það gaf eftir og lagðist nánast ofan á næsta sæti fyrir aftan í flugtaki. En flugið var stutt og veðrið gott, þannig að það var ekki nema rétt á


PISTLAR

14/11/2005 | 00:00

Er Samfylkingin Framsóknarflokkur? (BJ)

Samfylkingin vekur athygli þessa dagana. Á flokksstjórnarfundi ákvað formaðurinn að breyta Samfylkingunni í Framsóknarflokk. Flokk sem hefur lítið fram að færa annað en að vera á móti Sjálfstæðisflokknum. Formaðurinn er líka í einkastríði við Morgunblaðið, stríði sem enginn botnar í nema kannski formaðurinn sjálfur. Blaðið, sem formaðurinn er ekki í stríði við, segir að Samfylkingin veki aðallega athygli fyrir „ósýnileika formannsins og málsvörn fyrir auðhringi.“

Framsóknarmenn hafa skapað sér sérstöðu í íslenskum stjórnmálum. Þeir geta haft allar skoðanir í öllum málum enda flokkurinn „opinn í báða enda.“ Framsóknarmenn njóta oftast virðingar í samræmi við stefnufestuna. Í minningargrein var nýlega tekið skemmtilega til orða um hinn látna: „ Á tímabili óttaðist maður að Guðni væri framsóknarmaður en það reyndist einhver óværa sem hann hristi af sér.“

Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom fyrst fram sem þingmaður vakti hún athygli fyrir að skera sig úr hópi Kvennalistakvenna í EES málinu. Hún var ekki á móti því eins og flokkssystur hennar, en heldur ekki með því. Hún greiddi ekki atkvæði. Þetta þótti sýna mikið sjálfstæði þingmannsins.

Ingibjörg varð svo borgarstjóraefni R-listans og velti úr sessi Sjálfstæðismönnum sem höfðu haft meirihluta í 12 ár samfleytt. Undir forystu hennar safnaði borgin miklum skuldum, um hálfum milljarði á mánuði, en hún var skuldlítil þegar R-listinn tók við.

Þó virtist R-listinn ekki alveg heillum horfinn. Nýtti sér til dæmis frjálshyggjuhugsjónir í einkavæðingu á nokkrum sviðum, þó að ekki væri hún viðamikil. Náið samband Ingibjargar og leiðtoga Framsóknarmanna í borginni, Alfreðs Þorsteinssonar, vakti alla tíð athygli. Alfreð stærði sig af því að Ingibjörg hringdi yfirleitt í hann þrisvar á dag.

Nú er komið í ljós að hún hefur margt af Alfreð lært. Nú þegar Framsóknarflokkurinn er að hverfa af sjónarsviðinu kemur í ljós að það breytir engu. Ingibjörg ætlar að gera Samfylkinguna að Framsóknarflokki.

Hún sagði í ræðu á flokksstjórnarfundinum: „Samfylkingin hlýtur að taka sér stöðu andspænis Sjálfstæðisflokknum og standa vörð um miðjuna í íslenskum stjórnmálum. ... Sjálfstæðisflokkurinn, á hinn bóginn, er ekki og hefur ekki verið brautryðjandi í íslenskum stjórnmálum í áratugi. Það hefur enda verið stefna flokksins að lulla eftir sæmilega greiðfærum götum sem aðrir hafa mótað úr áður illfærum troðningum.“

Flestir aðrir en Ingibjörg átta sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn hér á landi undanfarin 14 ár og 19 ár af síðustu 22. Lengst af með forystu.

Ingibjörg Sólrún sagði að þegar frjálshyggjan væri á undanhaldi þyrfti Samfylkingin að sækja inn á miðjuna Hún ætlar Samfylkingunni með öðrum orðum sess Framsóknarflokksins. Hún vill ekki vera vinstri maður. Hrifningin af millifærslum leynir sér ekki: „Það var í tíð vinstri stjórnarinnar 1988-1991 sem ráðist var í endurskipulagningu og endurfjármögnun íslensks sjávarútvegs og tapi snúið í hagnað. Sjálfstæðismenn fundu því allt til foráttu og kölluðu sjóðasukk.“

Allir sem hafa kynnt sér fjáraustur vinstri stjórnarinnar (sem Kvennalistinn, þáverandi flokkur Ingibjargar, studdi ekki) vita hve illa var haldið á fé almennings í þeirri stjórn. Útgerðirnar börðust í bökkum eftir endalaus ríkisafskipti. Nú ráða þær hins vegar við óvenjulega óhagstætt gengi vegna þess hve vel þær hafa náð að hagræða eftir að sjóðasukkinu linnti.

Einn glæpur núverandi stjórnar er: „Ríkisstjórnin trúir ekki á stjórnvaldsaðgerðir – hún trúir á markaðslögmálin.“ Samfylking Ingibjargar er væntanlega á þveröfugri skoðun. Ingibjörg heldur því áfram þar sem frá var horfið í síðustu alþingiskosningum. Hún ætlar að halda fram málstað sem gerir Samfylkinguna ósamstarfshæfa.

Í millikafla víkur Ingibjörg með óskiljanlegum hætti að Morgunblaðinu: Hún sagði að enginn annar fjölmiðill á Ísland hefði eins afgerandi stefnu og beitti sér með jafn grímulausum hætti gegn einum tilteknum stjórnmálaflokki. „Enginn annar fjölmiðill þjónar jafn opinskátt tilteknum sérhagsmunum í íslensku samfélagi. Enginn fjölmiðill er því jafn hræsnisfullur og Morgunblaðið er í skrifum sínum um samtvinnun fjölmiðlavalds og samfélagsvalds.“ Hún bætti við að hún teldi mikilvægt að lesendur vissu um stefnuna og tækju ritstjórnargreinum blaðsins með varúð.

Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að Samfylkingin hefur ekki stuðning neins blaðs. Blaðið segir t.d. í ritstjórnargrein á laugardegi 12. nóv. (Líklega er rétt að taka ritstjórnargreinum Blaðsins með varúð héðan í frá) : „Í dag veit enginn fyrir hvað Samfylkingin stendur. Flokkurinn er með og móti varnarliðinu, með og á móti skattahækkununum, með og á móti einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og með og á móti kvótakerfinu. Á sama tíma er flokkurinn í borginni rjúkandi rúst eftir andlát R-listans, sem rekja má beint til þess þegar hún gekk á bak orða sinna og fór í landsmálin.“

Hér skjátlast Blaðinu. Af lýsingunni má ráða að Samfylkingin er orðin Framsóknarflokkur.

Benedikt Jóhannesson

Fleiri pistlar

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is