leita

ELDRI PISTLAR

Fyrir 36 árum kom ég Ísafirði í samband við umheiminn. Ég held að Ísfirðingar séu tiltölulega sáttir við mig, en ég er ekki viss um umheiminn. Sumarið 1975 bjó ég í tjaldi í einum afskekktasta firði landsins Hestfirði við að smíða brú yfir síðustu óbrúuðu hindrunina í Ísafjarðardjúpi, Hestfjarðarána.

05. september | Í neyðartilviki (BJ)
Í síðustu viku fór ég nokkuð víða. Ég ferðaðist bæði með skipi, bílum og flugvélum, auk þess sem ég beitti hestum postulanna. Eftir ferðina er eitt öðru fremur sem leggst á mig. Hvað á að gera ef hætta steðjar að? Ferðin hófst á því að ég ók

Sumarið 1912 birtist skyndilega maður á Akureyri sem bar nafnið George H. F. Schrader. Hann var af þýskum ættum en hafði starfað á verðbréfamarkaðinum á Wall Street í 35 ár áður en hann kom hingað. Enginn veit af hverju hann kom. Honum hafði græðst töluvert fé. Schrader hjálpaði Norðlendingum


PISTLAR

05/02/2004 | 00:00

Ólafur Ragnar: Hvers vegna varstu ekki heima? (JGH)
Það fer ekki á milli mála þegar yfirlýsing forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, til fjölmiðla í gær er skoðuð að forsetinn hefur orðið ævareiður út í forsætisráðherra fyrir að fá ekkert áberandi hlutverk þegar þjóðin héldi upp á 100 ára afmæli heimastjórnar. Í bræði sinni dró Ólafur þá furðulegu ályktun að þátttöku forseta væri ekki óskað. Þetta var auðvitað það sem þjóðina grunaði þegar hún tók eftir því að kvöldi 1. febrúar að forsetinn hunsaði hátíðina í Þjóðmenningarhúsinu og valdi einmitt þennan dag (af öllum dögum) til að bregða sér á skíði til Bandaríkjanna. Ekki ætla ég að fara nánar út í snobbið og fínheitin á skíðastaðnum sem sumir hafa gert að einhverju máli, skíðastaðurinn kemur málinu ekki við. En í fýlukasti út í forsætisráðherra gerði forsetinn afdrifarík mistök. Hann lét reiði sína gagnvart Davíð Oddssyni bitna á þjóðinni og kaus að vanvirða hana með fjarveru sinni vegna þess að hans eigin metnaði og egói var ekki fullnægt.

En málið er þetta; hversu reiður sem forsetinn varð út í forsætisráðherra þá átti hann að vera heima og fagna með þjóðinni þótt hann yrði að láta sér nægja að vera bara „í hópi áhorfenda" að sjónvarpsdagskrá sem send var út frá Þjóðminningarhúsinu að kvöldi 1. febrúar. Enda var það ekki nema von að flestir risu upp hneykslaðir og segðu einum rómi: Hvers vegna varstu ekki heima? Það hefði verið leikur einn fyrir forsetahjónin að fljúga vestur um haf mánudagskvöldið 2. febrúar og fara á skíði og í langþráð frí. Í raun eru þessi mistök Ólafs Ragnars illskiljanleg þar sem hann hefur alla tíð þótt mjög taktískur maður og kunnað manna best þá hernaðarlist að spinna atburðarásina eftir sínu höfði og stjórna henni. En þarna varð honum á í messunni. Forsetinn hafði sömuleiðis nægan tíma í aðdraganda hátíðahaldanna að gera út um sín mál við forsætisráðherra á bak við tjöldin og lýsa yfir óánægju sinni þegar hann sá þátttökuleysi sitt í hátíðahöldunum. Svo hratt hefur fjarað undan Ólafi Ragnari Grímssyni síðustu daga að líklegast er lag fyrir öflugan einstakling að bjóða sig fram gegn honum í vor.

Mistök Halldórs Ásgrímssonar

En það hafa fleiri gert mistök vegna 100 ára afmælis heimastjórnar á Íslandi. Það er skömm að því að Halldór Ásgrímsson, verðandi forsætisráðherra, skyldi líkt og Ólafur vera fjarverandi hinn 1. febrúar. Skiptir þar engu þótt hann hafi verið búinn að afhjúpa minnisvarða af Hannesi Hafstein á Ísafirði um miðjan janúar. Ég er sömuleiðis sammála Sigurði Líndal, fyrrum lagaprófessor, sem sagði í sjónvarpsþætti að auðvitað hefði átt að finna forsetanum einhvern stað í dagskránni í Þjóðmenningarhúsinu, t.d. með því að láta hann flytja stutt ávarp í upphafi dagskrárinnar en að Davíð Oddsson forsætisráðherra tæki síðan til máls og héldi aðalerindið – líkt og hann gerði. Þetta voru mistök og er ekkert óeðlilegt þótt margir líti svo á að þarna hafi forsetinn viljandi verið snupraður af forsætisráðherra og formanni hátíðahaldanna, Júlíusi Hafstein. Það breytir hins vegar ekki því að forsetinn átti ekki að láta reiði sína út í Davíð og Júlíus bitna á þjóðinni.

Ríkisráðsfundurinn

Forsetinn hefur gert mikið fjaðrafok út af ríkisráðsfundinum sem haldinn var að honum fjarstöddum hinn 1. febrúar. Það er í raun allt annað mál en hin illskiljanlega fjarvera hans á hátíðahöldunum. Það er athyglisvert að forsetinn hefur reynt að gera fjarveru sína á ríkisráðsfundinum að aðalatriðinu - og hefur honum því miður tekist það að nokkru leyti. Ekki fer á milli mála að stjórnsýslulega var rétt að málum staðið varðandi boðun þessa ríkisráðsfundar. Fundurinn snerist ekki um persónuna Ólaf heldur embætti forsetans og því voru hinir þrír handhafar forsetavaldsins á fundinum, en einn þeirra, forsætisráðherra, boðaði til hans. Ég er hins vegar sammála forsetanum í því að það hefði verið meira en allt í lagi að hringja vestur um haf til hans á laugardeginum – en hann var þá ekki búinn að festa á sig skíðin – og segja honum frá hugmyndinni um ríkisráðsfundinn. Þótt auðvitað hafi ekki verið nein ástæða til að liggja í símanum og grátbiðja hann um að koma til landsins og gleyma ekki sínu hlutverki. En það átti að hringja í hann og láta hann vita. Það var sjálfsögð kurteisi. Hann hefði þá getað brunað til Íslands í einum grænum eins og hann hefur sagt okkur að hann hefði örugglega gert ef hann hefði fengið vitneskju um fundinn.

Það hefðu því ýmsir getað staðið sig betur í tengslum við hátíðahöldin í Þjóðmenningarhúsinu hinn 1. febrúar og ríkisráðsfundinn. En það breytir því ekki að stóru mistök forsetans voru þau að vera ekki heima á Íslandi þessa helgi og fagna deginum með þjóð sinni. Þá hefði þessi darraðardans aldrei komið upp. Þjóðin sendi hann ekki á skíði og hann getur ekki reiðst út í neinn nema sjálfan sig. Hvers vegna varstu ekki heima? Eða eins og segir í dægurtextanum: Hvers vegna varstu ekki kyrr? (hér heima) Um orð forsetans að hann sé öryggisventill á ríkisráðsfundum er varla hægt að tjá sig svo furðuleg eru þau. Hvaða launráð heldur hann að menn séu að brugga og er handhöfum forsetavaldsins ekki treystandi?

Ólafur Ragnar Grímsson lærir vonandi af þessum mistökum sínum; að vanvirða ekki þjóðina og gera sig ekki að einhverjum píslarvætti með því að reyna að koma sökinni yfir á aðra. Hann átti ekki að gleyma hlutverki sínu sem forseti þótt hann hefði hlutverk óbreytts áhorfanda í Þjóðmenningarhúsinu. Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, bar að sýna þjóðinni þá virðingu sem henni bar á þessari sögulegu stund; 100 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi!

Jón G. Hauksson.

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is