leita

ELDRI PISTLAR

Nú er komin ný ríkisstjórn og hún fékk fljúgandi start. Allir voru orðnir þreyttir á þeirri gömlu og töldu að ekki myndi það versna. Bráðabirgðastjórn sem ætlaði að klára brýnar efnahagsaðgerðir virtist einmitt vera svarið við kröfum fólksins. Minnihlutastjórn getur aldrei verið sterk stjórn, en þessi stjórn hefði átt

Það er stuð á Steingrími. Það er líka þekkt úr fræðum rafmagns að þegar rafsegulsviðið er sterkt að þá verður vart við truflanir í nærliggjandi tækjum og ólíkindatólum. Steingrímur spurði forstjóra nokkurra orkufyrirtækja á fundi Samtaka atvinnulífsins hversu mörg ástarbréf hann hefði skrifað til að fá lán fyrir þá

Hvers vegna eru heittrúaðir (kirkjan og kommarnir) svona mikið á móti því að láta skynsemina ráða í frídögum? Stundum dettur mér í hug hvort ekki sé rétt að endurhugsa helgidagana. Ekki bara með það í huga að færa fimmtudagsfrí yfir á föstudag eða mánudag en ekki síður að menn velti betur


PISTLAR

25/04/2008 | 14:33

Sturlaðir bílstjórar (JGH)

Helgi Gunnlaugsson afbota- fræðingur hefur mikið til síns máls í Morgunblaðinu þegar hann segir að kveikiþráður vörubílstjóra sé stuttur vegna þess að rekstrurinn í greininni sé óhagstæður og einyrkjar í hópi vörubílaeigenda nái varla endum saman. Þetta er athyglisverð hlið á málinu; samkvæmt þessu eru vörubílstjórar að mótmæla taprekstri fremur en álögum hins opinbera í verði bensíns og dísilolíu.

Helgi segir ennfremur að mótmæli bílstjóranna endurspegli ekki stöðuna í þjóðfélaginu og sé ekki vísbending um að allt sé að fara úr böndunum. Helgi segir að margir vörubílaeigendur hafi eflaust tekið erlend lán til að kaupa bílana og þau hafi hækkað mikið að undanförnu. Verkefnastaðan hafi líka versnað skyndilega og að ástandið komi verr niður á einyrkjum en stærri fyrirtækjum. Nái menn ekki endum saman við þessar aðstæður sé ekki óeðlilegt að kveikiþráðurinn sé stuttur.

Mótmæli bílstjóranna hafa auðvitað farið úr böndum. Þeir hafa beitt samborgara sína ofbeldi undanfarinn mánuð með lokun vega. Umræðan ætti að snúast um þolinmæði og langlundargeð lögreglunnar fremur en hörku hennar. Vörubílstjórarnir eru löngu búnir að koma skilaboðum sínum til þingmanna áleiðis. Mótmæli þeirra hafa breyst úr mótmælum í skrílslæti. Þetta er svipað og þegar skrílslætin brutust út í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrr í vetur; þau hétu mótmæli en voru skrílslæti og ofbeldi ungmenna.

Talsmaður og foringi vörubílstjóranna, Sturla Jónsson, er sá sem efnt hefur til skrílslátanna. Hann og hans menn hafa tekið lögin í sínar hendur. Auðvitað hlaut að koma að því að þolinmæði samborgara og lögreglunnar brysti; þanþolið er ekki ótakmarkað. Lögreglan lét til skarar skríða; með réttu. Bílstjórarnir kvarta yfir harðræði lögreglunnar og stilla sjálfum sér upp sem sakleysingjum sem ekkert geri. Það er allt löggunni að kenna. Ekki benda á mig. Að vísu var það lögregluvarðstjóri sem þannig komst að orði í ágætum dægurlagatexta.

Sturla Jónsson segist fordæma árás vörubílstjóra á lögregluþjón fyrir utan gömlu strætisvagnalóðina við Kirkjusand. En þannig talaði hann ekki á vettvangi í sjónvarpinu heldur gerði hann lítið úr lögreglunni og kvartaði yfir því að nokkra lögregluþjóna hefði þurft til að snúa árásarmanninn niður í götuna; mann sem hann sagðist ekki þekkja og væri ekki á sínum vegum. Sturla sagði þarna vísvitandi ósatt því maðurinn hefur verið í framvarðasveit bílstjóra í skrílslátum þeirra að undanförnu.

Mótmæli geta verið margs konar. Helgi Hóseason hefur mótmælt kirkjunni og yfirvöldum kirkjugarða. Gerð var mynd um hann þar sem hann var kallaður mótmælandi Íslands. Mér skilst að enn megi sjá Helga mótmæla við Langholtsveginn. Þögul mótmæli. Hann heldur á skilti við eitt hornið og truflar engan. Helgi varð líklegast frægastur fyrir að skvetta eitt sinn skyri yfir þingmenn við setningu Alþingis. Það er með Helga og aðra mótmælendur að fólk hættir með tímanum að vita hverju er verið að mótmæla. Helgi hefur t.d. krafist þess að skírnarathöfnin yfir honum verði afturkölluð - en mun víst ekki vera hægt samkvæmt reglum kirkjunnar.

Ein frægasta setning Íslandssögunnar var sögð af Jóni Sigurðssyni og öðrum fulltrúum Íslands á Þjóðfundinum 1851 í Lærðaskólanum, gamla menntaskólanum. Þeir risu á fætur og mótmæltu yfirgangi danska konugsvaldsins í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, og sögðu: „Vér mótmælum allir“.

Vörubílstjórarnir mótmæla ekki lengur, þeir efna til skrílsláta og taka lögin í sínar hendur. Lögreglan gerði rétt í því að taka loksins á þeim. Enda ganga mótmæli Sturlu Jónssonar og bílstjóranna núna út á að mótmæla hörku lögreglunnar við Rauðavatn. Hvað verður það næst? Mótmæli enda alltaf á því að enginn veit að lokum hverju er verið að mótmæla. Það er öllu mótmælt.

Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is