leita

ELDRI PISTLAR

Vor eða haust eru ekki til á Íslandi, samkvæmt almanakinu. Bara vetur og sumar. Við kveðjum síðasta vetrardag og daginn eftir fögnum við sumardeginum fyrsta – yfirleitt í strekkingsvindi og kulda. Kannski gluggaveðri eins og var í gær. Hún er líka góð sagan af útlendingi sem var staddur hér

Framhjáhald, nauðgunartilraun, einelti, þjónkun viljalausra starfsmanna við auðugan eiganda, afbrýði og hefnd. Þetta er svo yfirgengilegt að ef það væri hlé gengi maður út. Ég fór í leikhúsið um daginn að sjá Woyzeck. Í byrjun leiks kom fram einhver maður og sagði okkur að þetta væri

„Hvað erum við orðin gömul, Vigdís mín?“ sagði ég þegar við vorum að hlusta á útvarpið á sunnudagsmorgni. Kona af Austurlandi sagðist hafa heyrt orðið flautaþyrill í æsku. Það hefði verið notað um fljótfæran mann. Þáttarstjórnandinn hafði aldrei heyrt orðið og tveir íslenskufræðingar kepptust við að fletta því upp


PISTLAR

15/05/2008 | 13:29

Vandi sjálfstæðismanna (JGH)

Vandi sjálfstæðis- manna í borginni er sá að þar fer höfuðlaus her. Það veit enginn hver fer fyrir hópnum. Þess vegna mælist flokkurinn með 30% fylgi í Reykjavík um þessar mundir. Þess vegna er Ólafur F. Magnússon borgarstjóri orðinn oddviti núverandi meirihluta og foringi sjálfstæðismanna í hugum fólks. Þar með færast óvinsældir hans yfir á borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna.

Þetta nýtir Dagur B. Eggertsson sér eðlilega óspart og hamast á „persónulegum vini sínum“ Ólafi F. Magnússyni og bætir svo ævinlega við að Ólafur sitji í skjóli sjálfstæðismanna og að þeir beri ábyrgð á honum. Þetta er afbrigði af Albaníuaðferðinni. Dagur ræðst á Ólaf F. en er í raun að reka pólitíska rýtinga í sjálfstæðismenn þó ekki ætli ég að vekja umræðuna um hnífasettin upp aftur. Hún snerist víst um bakið, en doktor Dagur kemur beint að mönnum. Þessi herfræði hans er í sjálfu sér klók; hann sér varnarleysi sjálfstæðismanna og hvers vegna ekki að hamast á þeim. Dag langar ekkert meira en að verða borgarstjóri aftur og Svandís Svavarsdóttir hefur enn ekki náð andanum yfir að hafa klúðrað 100 daga meirihlutanum. Það vekur raunar athygli að umrædd könnun Capacent var unnin fyrir Vinstri græna á tímabilinu 1. mars til 16. apríl. Hvers vegna ekki að ákveða að láta gera könnun fyrir sig og hefja síðan stórsókn á andstæðinginn!? Það heitir herkænska.

Ráðning Jakobs F. Magnússonar sem miðbæjarstjóra var ekki komin til sögunnar þegar könnunin var gerð. Árás Dags á Ólaf F. og Jakob F. er hins vegar dæmigerð fyrir herfræði Dags gegn sjálfstæðismönnum. Hann tók frumkvæðið og hóf að níða „persónulegan vin“ sinn Ólaf F. fyrir að ráða Jakob og náði upp umræðunni í fjölmiðlum að um pólitískt hneyksli væri að ræða. Dagur endaði síðan á því, eins og fyrri daginn, að þetta væri  sjálfstæðismönnum að kenna því Ólafur F. sæti í skjóli þeirra og þeir bæru ábyrgð á honum. Eftir standa foringjalausir sjálfstæðismenn og segjast lítið eða ekkert vita um mál. Þeir byrja svo á að afsaka Ólaf. Hversu oft eru sjálfstæðismenn ekki búnir að útskýra það fyrir fólki að borgarstjóri hafi ekki alveg meint það sem hann sagði? Hann „meinti þetta ekki svona“.
 
Ráðningu Jakobs F. Magnússonar þarf ekki að afsaka. Hún er líklegast með því betra sem Ólafur F. hefur gert. Ef borgarstjóri getur ekki ráðið því hvern hann vill í eins árs verkefni til að taka til hendinni í miðbænum – þá er borgarstjóri gjörsamlega valdalaus maður. Fegrun miðborgarinnar er í forgangsröð. Hús eru í niðurníðslu verktaka og graffið er að gera alla vitlausa. Oft er best að leita út fyrir embættismannakerfið til að koma brýnum hlutum í verk. Jakob er auðvitað umdeildur en hann er hugmyndaríkur og kemur hlutum í verk. Hann er vissulega pólitíkus, var í Alþýðuflokknum, Samfylkingunni og síðast Íslandshreyfingunni. Þegar Jakob skaut á Dag sem bitran lækni; manninn sem Jakob sagðist hafa barist hart fyrir að kæmist í fyrsta sætið og þetta væru þakkirnar, varð Dagur hörundsár og sagði Jakob sem borgarstarfsmann ekki mega tjá sig um málið og að ráðning hans hefðu verið læknamistök Ólafs F.

Ég tel að best hefði verið að ráða Jakob sem verktaka í stað þess að setja hann inn í embættismannakerfið. Borgarstjóri hefur hins vegar upplýst að nálægt 20 starfsmenn borgarinnar hafi yfir 950.000 krónur í mánaðarlaun. (Auðvitað vissi Dagur það allan  tímann). Og að á fimmta tug starfsmanna Reykjavíkurborgar hafi hærri laun en Jakob en laun hans eru sögð 710.000 þúsund krónur á mánuði, eða þau sömu og fyrrum  miðborgarstjóri, Kristín Einarsdóttir, hafði í tíð R-listans.

Annað mál; sjálfstæðismenn eiga að hætta að tala í afsökunartón um Reykjavíkurflugvöllinn og þvælast með hann fram og til baka á milli línanna. Þetta eru hreinar línur. Hafi Ólafur F. verið kjörinn borgarfulltrúi út á eitthvað eitt mál þá var það að hann vildi hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Hann getur ekki gefið það mál eftir. Þess vegna á að setja völlinn í bið út kjörtímabilið – þótt allir viti um þá afstöðu Gísla Marteins og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um að völlurinn víki fyrir íbúðabyggð og að þau séu sammála Degi B. Eggertssyni í þeim efnum.

Brýnasta verkefni sjálfstæðismanna er núna að velja sér nýjan foringja í borgarstjórnarflokknum. Best er að efna til prófkjörs í haust; láta sjálfstæðismenn í Reykjavík velja næsta borgarstjóra, þann sem tekur við af Ólafi. Það veit enginn almennilega hvort Vilhjálmur Þ. ætli sér að taka við eða stíga til hliðar; Kjartan Magnússon er sagður guðfaðir núverandi meirihluta og vill meiri völd; Gísli Marteinn fór í slag um fyrsta sætið á móti Vilhjálmi Þ. síðast og vill stólinn; Hanna Birna vill líka stólinn vegna þess að hún fékk flest atkvæði í síðasta prófkjöri sjálfstæðismanna þótt hún byði sig ekki fram í fyrsta sætið eins og Gísli Marteinn. Loks gerir Júlíus Vífill sér vonir um að verða næsti borgarstjóri og foringi flokksins í Reykjavík.

Þetta er höfuðlaus her og það mun halda áfram að fjara undan honum þangað til foringjamálin verða komin á hreint. Vegna þess að þangað til er Ólafur F. foringi sjálfstæðismanna - bæði í hugum fólks og samkvæmt formúlu Dags.

Jón G. Hauksson

jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is