leita

ELDRI PISTLAR

Svo gæti farið að vinstristjórn yrði á Íslandi eftir næstu kosningar – ef marka má sumar kannanir að undanförnu; stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar. Á meðan ýmsir nefna slíka stjórn draumastjórn segjast aðrir ætla að flýja land verði hún að veruleika. En hverjir myndu verða ráðherrar í nýrri vinstristjórn?

01. nóvember | Hvað næst? (BJ)
Það var fróðlegt að sjá tvo hryðjuverkamenn í sjónvarpinu um helgina. Arafat er ekki lengur talinn hryðjuverkamaður heldur forseti, en nú hefur herjað á hann sjúkdómur sem menn átta sig ekki strax á. Hann horfði ráðleysislegur út í loftið á myndum og sendi fólki fingurkossa. Bin Laden sendi enga fingurkossa

12. mars | Stutt ævi (BJ)
Í gær heyrði ég nokkrar ævisögur í útvarpinu. Vettvangur ævisagna í útvarpi hefur helst verið RÚV eða Útvarp Saga þar sem Sigurður G. Tómasson les Dægradvöl Benedikts Gröndals. Þessar sögur voru hins vegar á BBC sem heyra má hér á landi. Það sem einkenndi þessar ævisögur var að þær


PISTLAR

10/02/2003 | 00:00

Ingibjörg Sólrún afhjúpar … ekki neitt (BJ)

Það er athyglisvert að í fyrstu ræðu sinni sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar sáir Ingibjörg Sólrún fræjum tortryggni um vinnubrögð skattrannsóknarstjóra og efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Þeir séu í raun aðeins útsendarar Davíðs Oddssonar. Þar með samtvinnar hún trúverðugleika sinn niðurstöðu þessara rannsókna. Þó virðist Ingibjörg stundum segja Davíð, en meina Össur.

Ræða Ingibjargar Sólrúnar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar vakti verðuga athygli. Með henni var hún að setja fram stefnu sína sem forsætisráðherraefni og þá þar með hugsanlega þá stefnu sem fylgt verður næstu fjögur ár verði henni að ósk sinni. Það hlýtur að vekja fögnuð allra unnenda frjáls atvinnurekstrar í landinu að hún lagðist gegn afskiptum stjórnmálamanna af fyrirtækjum og sagði „að færa mætti rök að því að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækjum landsins sé ein aðal meinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. " Þetta er hárrétt hjá forsætisráðherraefninu.

Fyrirgefum vorum stuðningsmönnum

Það vakti þó athygli að Ingibjörg sá ástæðu til þess að efast um að gagnrýni og rannsóknir á einstökum fyrirtækjum væru byggðar á rökum heldur mætti túlka þær sem árás forsætisráðherrans á þessi ákveðnu fyrirtæki: „Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki - þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gagnsæju leikreglur lýðræðisins taki við. Þetta er verkefni Samfylkingarinnar. Samfylkingin á að vera óháð öllum helstu eignahópum í samfélaginu, hún á að gæta almannahagsmuna ekki sérhagsmuna."  Ekki rekur undirritaðan minni til þess að í gangi sé rannsókn á Kaupþingi, en hin fyrirtækin tvö eru undir opinberri rannsókn, Baugur hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og Norðurljós hjá skattrannsóknarstjóra. Það verður að teljast mikið áræði hjá stjórnmálamanni og forsætisráðherraefni að lýsa með svo afdráttarlausum hætti yfir tortryggni vegna þessara rannsókna. Trúverðugleiki stjórnmálamannsins er þar með samtvinnaður niðurstöðu í þessum málum. Reyndar hefur Ingibjörg áður lýst yfir sérstöku dálæti á Jóni Ólafssyni, stjórnarformanni Norðurljósa. Það er öllum kunnugt að Jón fékkst á æskuárum við fíkniefnainnflutning og sölu. Hann hefur sjálfur viðurkennt þetta í viðtölum og kennt við „bernskubrek". Aðrir stjórnmálamenn reyna yfirleitt að skipa sér í lið gegn fíkniefnasölunum en það gerir Ingibjörg Sólrún ekki og sýnir þar með að hún er öðruvísi stjórnmálamaður, pólitíkus sem á auðvelt með að fyrirgefa bernskubrekin. 

Össur tók áhættuna … ekki

Ingibjörg víkur einnig að Íslenskri erfðagreiningu: „ Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Ísl. erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum." Það vekur athygli að Ingbjörg segist hér ráðast að Davíð Oddssyni, en einn þeirra stjórnmálamanna sem fyrstur lýsti yfir stuðningi við ríkisábyrgðina var félagi Ingibjargar og formaður. Í Morgunblaðinu 10. apríl 2002 sagði:

„ÖSSUR Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segist telja uppbyggingu lyfjaþróunarfyrirtækis á Íslandi afar áhugaverða og segist styðja að deCODE fái ríkisábyrgð þó að vissulega fylgi því ákveðin áhætta. Málið hafi hins vegar ekki enn verið rætt í þingflokki Samfylkingarinnar en hann kveðst telja útilokað að Samfylkingin leggist í víking gegn frumvarpinu.
„Mér persónulega finnst þetta vera áhugaverður kostur til að byggja upp hátækniiðnað á Íslandi. Ég er klár á því að þetta er töluverð áhætta. Við höfum hins vegar í landinu góðan grunn að lyfjaiðnaði sem hefur verið í mikilli útrás. Ég er sannfærður um að deCODE er gott fyrirtæki sem á mikla framtíð fyrir sér. Það hefur auðgað mjög íslenskt atvinnulíf og ég tel að þessi nýja aðkoma þess að lyfjaframleiðslu sem byggist á erfðatæknilegum aðferðum styrki mjög undirstöðu lyfjaiðnaðarins. Hér er því verið að leggja grunn að framtíðaratvinnugrein."
Össur sagðist einnig líta á þetta mál sem þingmaður Reykvíkinga. Reykjavík þyrfti að geta staðist samkeppni við aðrar alþjóðlegar borgir. Það yrði að vera hægt að bjóða ungu fólki upp á fjölbreytt atvinnulíf sem borgaði há laun og byði vel menntuðu fólki trygga atvinnu.
„Þegar verið er að brjóta jarðveg fyrir nýjar greinar þarf stundum að taka áhættu og sem stjórnmálamaður er ég persónulega reiðubúinn til þess." 

Að vísu reyndist Össur ekki tilbúinn að taka þessa áhættu þegar á hólminn var komið og sat hjá við afgreiðslu málisins á þingi, en það er einmitt hin nýja leið Samfylkingarinnar.

Við höfum engin svör, en leit stendur yfir

Ingibjörg gerist strax í þessari ræðu sek um það sem hún gagnrýnir. Hún gefur til kynna stuðning við fyrirtækin sem forsætisráðherra hefur gagnrýnt. Óvinir hans eru vinir Sólrúnar. Að vísu er hún enn og aftur og undir rós að gagnrýna formann sinn og pólitískan talsmann, Össur Skarphéðinsson, en fáir stjórnmálamenn ef nokkrir hafa ráðist jafnheiftarlega á fyrirtæki og hann gerði í skrifum sínum til forráðamanna Baugs. Það er einkennilegt að eftir því sem Össur gefur Ingibjörgu meira eftir, þeim mun mikilvægara telur hún að auðmýkja hann frekar. En um eitt eru þau þó sammála flokkssystkinin. Samfylkingin er enn að leita að stefnunni. Í ræðunni segir: „Við ætlum að vera flokkur sem nýtur trausts og hefur trúverðugleika - ekki vegna þess að við höfum svör á reiðum höndum við öllu sem upp kemur heldur vegna hins að við munum vanda okkur við leit að svörum. Heldur ekki vegna þess að við höfum lausn á hvers manns vanda heldur vegna hins að við viðurkennum að flókin viðfangsefni kalla á yfirlegu og góða dómgreind og oftar en ekki fjölþætta úrlausn þar sem hópar og einstaklingar leggja saman. Við eigum að boða stjórnmál sátta og rökræðu en ekki átaka og kappræðu." Sem sé: við boðum ekkert sérstakt, við höfum enga stefnu, en við viljum sættir um þetta sem ekkert er (og við finnum kannski). Við þorum að taka áhættuna af því að sitja hjá.

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is