leita

ELDRI PISTLAR

Í morgunkaffinu heima var ég spurður að því hvað mér þætti um að mótmælendur, sem ruddust inn í Alþingishúsið í Búsáhaldabyltingunni og brutu af sér, hefðu verið ákærðir. Ég sagði sem var að ég væri ekki klár á því hvernig ætti að taka á þessu máli. Ákæran væri réttmæt

Eigendum Kaupþings-banka finnst ekkert óeðlilegt við það að greiða Sigurði Einarssyni, forstjóra félagsins, 70 milljónir í laun fyrir síðasta ár, þar af 58 milljónir í formi bónuss vegna mikils hagnaðar bankans. Sigurður er afar hæfur stjórnandi og hefur unnið þrekvirki fyrir bankann á síðustu sex árum og meira en tífaldað

25. febrúar | Hótel við hæfi (BJ)
Stundum velti ég því fyrir mér hvort ekkert sértakt gerist á Íslandi. Fréttirnar á Mogga- vefnum eru ekki merkilegar eftir að þjóðinni tókst að flæma klámkóngana frá landinu. Jakob Frímannsson gekk úr Samfylkingunni og Björk Vilhelmsdóttir í hana (bauð hún sig ekki fram fyrir Samfylkinguna síðastliðið vor?). Það er


PISTLAR

12/01/2010 | 08:03

Á elleftu stundu (BJ)

Margir lesendur þessara dálka hafa velt því fyrir sér hvers vegna ekki sé fjallað hér ítarlegar um íþróttaferil minn. Því er til að svara að ég er ákaflega hógvær maður og ekki að ástæðulausu. Þó tel ég ástæðu til þess að gera undantekningu og segja frá afrekum mínum dag nokkurn í síðustu viku.

Þetta byrjaði þannig að ég vaknaði. Ég hef tekið eftir því að mjög margir dagar byrja þannig hjá mér. Þennan dag vaknaði ég ekki í tæka tíð til þess að lesa Moggann, sem mér þótti mjög miður. Það er óþægilegt að aka út í sortann og vita ekkert hvaða skoðun ég á að hafa.

Þegar ég kom að bílastæðinu við Háskólabíó tók ég eftir því að óvenju margir virtust vera komnir á undan mér. Ég taldi níu bíla og gerði ráð fyrir því að allir væru komnir nema Fúsi. Hann kemur alltaf síðastur og gengur þá í liðið sem stendur höllum fæti. Viðkvæðið er: „Við fáum Fúsa.“ Oftar en ekki snýr þetta stríðsgæfunni við.

Í búningsherberginu voru þó fáir kunnuglegir og ég leit á klukkuna til þess að sjá hve mikið ég væri of seinn. Þremur mínútum. Það er ekki mikið á okkar mælikvarða. Inni í sal voru bara þrír þannig að bílarnir hafa verið í eigu einhverra háskólanema sem hafa étið yfir sig um hátíðarnar og ætla að ná sér niður með hraði. Þeir fá ekki að æfa með okkur heldur verða að vera í tækjasal uppi á lofti.

Íþróttahús Háskólans er ekki stórt. Þegar tíu mæta á æfingar er völlurinn þéttskipaður. Í gamla daga voru leikir á Íslandsmeistaramótinu leiknir hér. Við erum ekki þeir fyrstu sem sýna meistaratakta á þessum slóðum.

Íþróttafélagið okkar er líklega að verða 20 ára. Enginn man nákvæmlega hvenær það var stofnað eða hverjir gerðu það. Líklega var það Páll Kr. því að ég man eftir bréfi í gamla daga þar sem kynntur var Leikfimihópur Páls Kr. Pálssonar. Ég byrjaði árið 1992. Þá voru flestir þeir sem núna eru í hópnum byrjaðir æfingar. Ekki þarf að hafa mörg orð um það að þeir eru ofboðslega góðir.

Hópurinn er löngu hættur að vera Leikfimihópur Páls. Hann mætti ekki í mörg ár. Kannski var það á þeim árum sem nafnið Skundum á Þingvöll varð til. Hópurinn lagði mikla stund á jafnvægisæfingu sem sýnd var á Alþingishátíðinni 1930 og líklega aftur árið 1944. Þar sem við mundum allir vel eftir þessari æfingu á frímerki sem gefin var út af þjóðlegum íþróttum töldum við rétt að halda henni á lofti, þannig að hún félli ekki í gleymskunnar dá.

Flestum hefði þótt eðlilegt að forvígismenn Lýðveldishátíðarinnar 1994 eða Kristnitökuhátíðarinnar árið 2000 hefðu haft samband við hópinn til þess að sýna þessa skemmtilegu æfingu. Okkur til undrunar sýndu þó forvígismenn hátíðanna fádæma tómlæti. Gestir á hátíðinni 1994 fóru því sneyptir heim og fáir lögðu leið sína á Þingvöll árið 2000 þegar fréttist af því að ekkert yrði af sýningu okkar.

Eina opinbera sýning hópsins var á hálfrar aldar afmæli mínu, en þá komu fjölmargir borgarbúar í Sjálfstæðishúsið við Austurvöll og nutu. Síðar meir reyndu útrásarvíkingar að toppa okkur með því að fá Elton John, Tinu Turner og einhvern óþekktan rappara í sínar hátíðir, en almennt var hlegið að þeim tilburðum.

Af því tilefni ætlaði ég að varpa á tjald mynd af frímerkinu fræga. Mér fannst líklegast að ég ætti það í verðmætu frímerkjasafni mínu, en það var þá horfið þaðan. Næst leitaði ég á Netinu, en Google reyndist ekki muna eftir þessu frímerki og er hann þó minnugur. Ég hafði samband við aldraðan mág minn sem man tímana tvenna en er nokkuð ern. Hann mundi vel eftir frímerkinu, en vissi ekki vel hvar það væri að finna. Á endanum ákvað ég að hringja í Magna frímerkjasala, en hann er alvitur á þessu sviði. Þegar ég kom að tómum kofanum hjá honum runnu á mig tvær grímur. Gat verið að frímerkið væri ekki til?

Eftir þessa furðulegu uppákomu var ekki nema eitt að gera. Ég varð að teikna frímerkið eftir minni. En þó að mér sé margt til lista lagt er teikning eitt af því sem ég er hæverskur yfir. Því fékk ég Magnús Val Pálsson stjörnuhönnuð til þess að teikna frímerkið eftir forsögn minni. Í þetta sinn sá ég hvernig lögregluteiknarar vinna.

Frímerki Magnúsar prýðir nú búning félagsins, sem til er í tveimur litum, bláum og gráum. Margir horfa á bolinn og minnast með nostalgíu gamla frímerkisins sem var til í hugskoti fjölmargra.

Þetta var útúrdúr, en nauðsynlegur því að ég er ekki viss um að þessi saga hafi verið skráð áður.

Meðan ég var að segja ykkur þessa sögu tíndust hinir félagarnir inn og brátt voru komnir níu. Skipt í tvö lið, fjórir í öðru og fimm í okkar. Við hugðum því gott til glóðarinnar, ég í liðinu og við vorum fleiri. En stríðsgæfan er stundum undarleg og af undarlegum ástæðum tóku hinir afgerandi forystu. Ég reyndi hvað ég gat að skjóta utan þriggja stiga línu, en það gefur tvö stig hjá okkur. Boltinn fór aldrei ofan í körfuna.

Sú skemmtilega regla gildir líka hjá okkur að ef einhverjum tekst að hitta í körfuna frá miðju vinnur hans lið, óháð því hvernig staðan er. Fyrst tilefni gefst til má geta þess hér að einu sinni vann mitt lið tapaðan leik með slíkri körfu. Hver skoraði? Ja fyrst þið spyrjið verð ég víst að taka það á mig.

En þennan fimmtudag gekk ekkert. Ég reyndi meira að segja miðjuskot en það var jafnlélegt og hin. Hitt liðið var komið í 16-12 og allt útlit fyrir svartan dag, þennan fyrsta keppnisdag ársins 2010. Þá gerðist svolítið undarlegt. Gummi kom inn í leikinn, en hann hefur ekki gengið heill til skógar og getur ekki keppt heilan leik. Auðvitað hefði hann átt að koma inn í okkar lið því að við vorum að tapa, en af því að hann er ekki Fúsi og við vorum fleiri gáfum við það eftir að hann kæmi í hitt liðið.

Þarna urðu þáttaskil í leiknum. Í næstu sókn á eftir skoraði ég tveggja stiga kröfu og fljótlega vorum við búnir að jafna leikinn og sigum framúr. Þeir komust í 18-18 en þá komu aftur tvö stig frá mér. Við unnum 21-18. Einhver eftirminnilegustu og óvæntustu úrslit á árinu.

Var þetta minn besti leikur? Nei, ekki get ég sagt það, þó að auðvitað hafi ég verið í lykilhlutverki. Fyrir rúmum mánuði skoraði ég, tja ég ætti ekki að vera að stæra mig af því, en það voru býsna margar tveggja stiga körfur.

Í lokin tökum við vítakeppni. Þá eru sömu lið. Fyrst var tekin keppni utan þriggja stiga línunnar. Úr þremur tilraunum skoraði ég aldrei, en það kom ekki að sök því að félagar mínir voru í góðu stuði og við unnum 10-2.

Þá var komið að venjulegu vítakeppninni. Hún var ekki skemmtileg. Eftir eina umferð vorum við undir 2-0. Eftir tvær umferðir var staðan 5-0. Að lokinni þeirri þriðju var hún komin í 7-0. Óli, einn okkar besti maður, gafst upp og fór í sturtu. Ekki hjálpaði það og eftir fjórar umferðir var staðan 10-0. Þeir voru reyndar ekki mjög hittnir í fimmtu og síðustu umferð, en Kristján sem tók síðasta skot þeirra skoraði af öryggi. „Innsiglað,“ sagði hann og tók upp íþróttatöskuna sína og ætlaði að arka fram.

„Það er eitt skot eftir,“ sagði Raggi. Við vorum saman í liði. Ég hafði tekið mér stöðu á miðjunni. Ég reyndi líka miðjuskot í fjórðu umferð, en hitti ekki einu sinni spjaldið. Ég sá að andstæðingarnir brostu hæðnislega að mínum tilburðum og félagar mínir voru niðurlútir. Kristján ákvað að auka pressuna og byrjaði að klappa. Allir hinir tóku undir. Ég fór mér rólega og vonaði að ég myndi drífa alla leið.

Dró djúpt andann, rakti boltann, andaði frá mér og aftur djúpt að mér. Lyfti höndum, steig fram með hægra fæti og ýtti boltanum af öllum krafti. Taktfast lófatakið heyrðist ennþá, en það var eins og lækkað hefði í því. Ég sá hina eins og í þoku og boltinn flaug um loftið eins í kvikmynd sem er sýnd hægt. Rétt við hringinn var eins og vélin stoppaði sýningu eitt andartak. Þetta var fjári nálægt.

Það varð dauðaþögn í salnum.

Boltinn hélt ferðinni áfram og það söng í netinu um leið og hann fór gegnum hringinn.

Sigur í höfn.

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is