leita

ELDRI PISTLAR

Ég minnist þess þegar ég var í háskólanum að ég fékk eitt sinn prófspurningu, sem var nokkuð löng og flókin, og endaði á orðunum: „Lýstu þessu með tilliti til hins gagnstæða.“ Það var og, sagði ég við sjálfan mig. Þessi spurning í prófinu rifjast upp þegar lesið er um

Davíð Oddsson sagði í viðtali við Fjónstíðindi í Danmörku, Fyens Stiftstidend , undir lok síðasta árs að ef hann yrði þvingaður úr starfi seðlabankastjóra myndi hann snúa aftur í stjórnmálin. Margir litu á þessi ummæli hans sem hótun og fóru á límingunum. Eftir að hafa verið bolað úr Seðlabankanum

Þegar Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, útskrifar nemendur skólans í troðfullri Laugardalshöll á laugardag þá verður hún að horfast í augu við það að viðhorf þessara nemenda, helstu viðskiptavina skólans, er neikvætt í garð skólans. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi fjögurra stærstu háskóla landsins. Það


PISTLAR

02/07/2010 | 16:47

Sjálfstæðisflokkur í sókn (JGH)

Miklar sviptingar eru í fylgi flokkanna, samkvæmt nýjum könnunum. Sjálfstæðis- flokkur er í sókn á meðan Samfylking og Vinstri grænir dala. Fylgi við stjórnina minnkar dag frá degi og augljós þreytumerki eru á henni. Lifir hún fram á haust?

Það fer ekki á milli mála að stjórnin hangir saman á viljanum einum til að hafa völd. Engu öðru.

Ýmsir segja að stjórnin lafi áfram vegna þess að fólk sjái enga aðra kosti í stöðunni. Vilji t.d. ekki Sjálfstæðisflokkinn. Það er sérkennileg afstaða – ef marka má skoðanakannanir. Hann er stærsti flokkurinn og með flesta fylgismenn.

Sjálfstæðisflokkurinn er með 35% fylgi í könnun sem Miðlun tók fyrir Morgunblaðið dagana 11. til 28. júní og spilar því nýafstaðinn landsfundur flokksins litla rullu í könnuninni.

Könnunin var einnig tekin eftir stórfurðuleg tilmæli stjórnvalda, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits í kjölfar dóms Hæstaréttar um að samningsbundnir vextir í svonefndum myntkörfulánum vikju og við tækju vextir Seðlabankans. Eitthvað segir mér að fylgið hafi hrunið af stjórnarflokkunum eftir þetta vitlausa inngrip.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var tekist á af hörku um ESB-mál og tóku fundarmenn völdin af forystunni og ályktuðu skýrt og skorinort að Íslendingar drægju umsókn sína um aðild að ESB til baka.

Haft er eftir þeim sem voru á fundinum að líklegast hafi um 80% fundarmanna verið á þeirri skoðun að draga bæri sem fyrst ESB-umsóknina til baka. Það er afgerandi meirihluti.

Það er erfitt að átta sig á hvað gerist innan Sjálfstæðisflokksins á næstu mánuðum eftir svo afgerandi ályktun. Munu ESB-sinnar innan flokksins yfirgefa flokkinn og stofna nýjan flokk eða ganga í raðir Samfylkingar sem hefur einn flokka það á stefnuskrá sinni að ganga í ESB – og eiginlega hvað sem það kostar.

Mér finnst fremur ólíklegt að þau 20% sjálfstæðismanna sem styðja ESB-aðildina yfirgefi flokkinn. Að minnsta kosti er ekki svo að heyra á þeim sem hafa tjáð sig um það í fjölmiðlum.

Ef Evrópusinnar innan Sjálfstæðisflokksins stofnuðu nýjan flokk þá fengi hann líklegast um 5 til 6 þingmenn. Stuðningur við ESB á meðal þjóðarinnar hefur minnkað og mun minnka enn frekar haldi ESB því til streitu að aðildin sé háð því skilyrði að Íslendingar greiði Icesave möglunarlaust.

Það kom mér verulega á óvart að Bjarni Benediktsson fengi óvænt mótframboð frá Pétri Blöndal á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það var snaggaralegt framboð, kom fram á laugardagsmorgni, nokkrum klukkustundum fyrir kosningar.

Bjarni fékk um 60% fylgi og Pétur um 35%. Ég veit svei mér þá ekki hvernig á að túlka þessa niðurstöðu en ég held að hún hljóti að vera Bjarna svolítil vonbrigði. Mér fannst að minnsta kosti fylgið við Pétur miklu meira en ég hafði reiknað með.

Bjarna hefur verið legið á hálsi að menn vissu ekki almennilega hvar þeir hefðu hann í ESB-málinu og hann talaði ekki nægilega skýrt hver hans vilji væri í þeim efnum. Núna hefur hann að minnsta kosti fengið línuna frá flokknum og getur svarað afdráttarlaust um stefnu flokksins.

Ég held sömuleiðis að línur séu að skerpast um helstu mál í þjóðfélaginu – ekki síst eftir að ríkisstjórnin lét Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið gefa út tilmæli um vaxtakjör ofan í dóm Hæstaréttar um gengistryggð lán. Þjóðin veit hvar hún hefur vinstri flokkana.

Almúginn í landinu er loksins að átta sig á að Jóhanna og Steingrímur J. eru ekki vinir litla mannsins þegar kemur að alvöru málum; þau eru vinir kerfisins, bankanna og innstæðueigenda.

Óvinsældir þeirra Jóhönnu og Steingríms munu hjálpa Bjarna Benediktssyni að vinna enn meira fylgi til Sjálfstæðisflokksins á næstu mánuðum.

En þá er það stóra spurningin. Hvaða flokkar geta unnið saman eins og staðan er núna? Það er nú það!

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is