leita

ELDRI PISTLAR

Textar eftir tvo fyrrverandi þingmenn Borgarahreyfingarinnar eru umfjöllunarefni dagsins. Ég las bók um helgina. Varla í frásögur færandi nema hún er eftir Þráin Bertelsson, þingmann VG. Þráinn hefur samið nokkrar bækur, en ég hef ekki lesið nema tvær. Önnur var sjálfsævisaga hans, Einhvers konar ég . Mér fannst

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, hefur fallið hressilega í verði að undanförnu og er hægt að tala um verulegan persónuafslátt – langt umfram aðra. Hann á sæti í efnhags- og viðskiptanefnd undir forystu Frosta Sigurjónssonar og lýsti í nefndaráliti sérstökum stuðningi við 50 milljarða skattleysismörk varðandi bankaskattinn á síðasta

Kosningaslagur í öllum flokkum er hafinn. Fréttir hafa borist um nokkra sem ætla ekki að bjóða sig fram aftur. Núna er fyrsta fréttin komin um einhvern sem býður sig fram og setur markið hátt. Það eru auðvitað tíðindi að Hanna Birna Kristjánsdóttir, gefi kost á sér í fyrsta sæti


PISTLAR

29/12/2010 | 19:16

Ræða við útnefningu manns ársins (JGH)

jong_nyHér kemur ræða sem ég flutti fyrir hönd dómnefndar í veislu á Hótel Sögu þegar Frjáls verslun útnefndi Valdimar Hafsteinsson, framkvæmda- stjóra Kjöríss mann ársins 2010 í íslensku atvinnulífi. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra afhenti viðurkenninguna. Þóra Einarsdóttir sópransöngkona söng nokkur lög við undirleik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara. Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, setti hátíðina og stýrði veislunni. Mikill fjöldi mætti í veisluna til heiðurs Valdimar og fjölskyldu. (Sjá myndir)

Ræðan var svona:

Maður ársins í íslensku atvinnulífi 2010,
iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir,
fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon,
starfsmenn Kjöríss,
góðir gestir.

„Við þykjum skrýtin.“

Ég hrökk við þegar ég sá þessa setningu.

En þannig kemst Valdimar Hafsteinsson að orði í ítarlegu viðtali Frjálsrar verslunar við hann og systur hans, Guðrúnu, vegna útnefningar blaðsins á honum sem manni ársins 2010 í atvinnulífinu á Íslandi.

Hann er með þessum orðum að útskýra að þau systkini búi öll steinsnar frá móður sinni, Laufeyju Valdimarsdóttur.

Þau sýna henni og hvort öðru ræktarsemi. Ég segi eins og er að seint þykir mér það skrýtin hegðun, hvað sem öðrum þykir.

Guðrún systir hans bætir því við að þau þyki óvenjuleg systkini vegna þess að þau hafi ekki rifist og bætir við: „Hugsanlega liggur gæfan í því að það er alltaf ein systir í húsinu í einu. Valdi segist aðeins þrífast ef það er ein systir með í rekstrinum.“

Valdimar Hafsteinsson, 44 ára framkvæmdastjóri Kjöríss, er afar vel að útnefningunni kominn.

Hann hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins í sextán ár og byggt það upp með móður sinni og systkinum eftir að faðir hans, Hafsteinn Kristinsson, einn stofnenda Kjöríss, féll skyndilega frá árið 1993, aðeins 59 ára að aldri.

Guðrún systir hans var framkvæmdastjóri fyrsta árið eftir að faðir þeirra lést – eða þar til Valdimar tók við þegar hann hafði lokið námi í iðnaðartæknifræði.

Eigendur Kjörís er móðir Valdimars, Laufey og börn hennar Aldís, bæjarstjóri í Hveragerði, Sigurbjörg, kennari, Guðrún markaðsstjóri og Valdimar. Þau eiga 75% en bróðir Hafsteins heitins, Guðmundur, á fjórðungshlut á móti þeim.

Þriðji bróðirinn, Sigfús, byggingameistari á Selfossi, seldi sinn hlut fyrir þrettán árum.

Í stjórn Kjöríss sitja fjórar konur og einn karlmaður, Guðmundur. Valdimar segist sjálfur ekki fá að vera með.

Þekktur útvarpsmaður spurði mig að því í morgun hvort Valdimar fengi þennan titil fyrir að hafa ekki farið með fyrirtækið á höfuðið í hruninu  - en skuldir um sjö þúsund lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru núna í ólagi eftir hrunið og þarfnast endurfjármögnunar.

Ég svaraði að það væri svolítið til í því, hann hefði a.m.k ekki fengið þessi verðlaun ef illa hefði farið fyrir fyrirtækinu í hruninu.

Veislugestir góðir!

Valdimar Hafsteinsson hlýtur þennan heiður fyrir mikla fagmennsku í rekstri, ráðdeild, dugnað, hófsemi og útsjónarsemi sem gert hefur Kjörís að stöndugu og framúrskarandi fyrirtæki og einhverju þekktasta vörumerki landsins.

Kjörís er 41 árs fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldu allan tíma.

Þegar við í dómnefndinni spurðumst fyrir um Valdimar fengum við ávallt sama svarið: Að hann væri vandaður maður og að fyrirtækinu stæði vandað og traust fólk.

Kjörís byggir eingöngu á innri vexti og hefur aldrei yfirtekið annað fyrirtæki. Fyrirtækið er vel rekið, það stendur fjárhagslega vel, skuldar lítið, eiginfjárhlutfallið er 59%. Það fór mjög varlega í útlánabólunni og tók engin glæfraleg lán.

Það hefur verið vel rekið þótt enginn risagróði sé í framleiðslunni.

Ís er góður! Og Kjörís hefur alltaf verið hjá okkur í gegnum tíðina. Og hver kannast ekki við spurninguna á hverju heimili um það hvort Kjörís eða Emmesís sé betri. Svarið er á hreinu.

Ís hefur líka lengi loðað við Hveragerði sem raunar er háhitasvæði. Hver kannast ekki við að hafa farið í bíltúr á árum áður í Eden í Hveragerði til að fá sér ís?

Velta Kjöríss á síðasta ári var 902 milljónir og hagnaður fyrir skatta 43 milljónir. Starfsmenn eru um fimmtíu talsins.

Kjörís telst meðalstórt iðnfyrirtæki, en er engu að síður einn stærsti matvælaframleiðandi landsins og fjórði stærsti vinnuveitandinn í Hveragerði.

Ekki fer á milli mála að mest mun mæða á litlum og meðalstórum fyrirtækjum við að rífa upp atvinnulífið á Íslandi við erfiðar aðstæður á næstu árum.

Það ríkir gagnkvæm virðing og hollusta á milli fyrirtækisins og starfsmanna.

Við hrunið ákvað fyrirtækið að segja engum upp, lækka engin laun og minnka ekki starfshlutfallið hjá neinum – heldur að taka á sig skellinn á meðan siglt væri í gegnum hrunið.

Valdimar segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin í ljósi þess að starfsmennirnir, sem hafi sýnt fyrirtækinu mikla tryggð í gegnum tíðina, hafi einnig fengið skell í hruninu – þeirra kostnaður jókst líka.

Fjölskyldunni hafa borist mörg glæsileg kauptilboð í fyrirtækið en hún hefur hafnað þeim öllum; þetta er þeirra fag og við þetta vill fjölskyldan starfa.

Góðir gestir!

Ekki verður um Kjörís fjallað án þess að minnast meira á föður Valdimars, Hafstein Kristinsson sem var frumkvöðullinn að stofnun fyrirtækisins ásamt Gylfa Hinrikssyni.

Hafsteinn var framkvæmdastjóri Kjöríss fyrstu tuttugu og fjögur árin.

Hafsteinn stofnaði raunar fyrst Ostagerðina og hugðist setja ýmsar nýjungar á markaðinn, svo sem ostana Camembert og Port Salut.

Þegar framleiðslan var í þann mund að verða söluhæf fékk Hafsteinn bréf frá Framleiðsluráði landbúnaðarins þar sem tilkynnt var um niðurgreiðslu á öllum ostum – nema þeim sem Ostagerðin framleiddi.

Með þessu var stoðunum algerlega kippt undan Ostagerðinni og henni gert ókleift að starfa áfram. Þess má geta að skömmu seinna hóf Mjólkurbú Flóamanna á Selfossi framleiðslu á þessum sömu ostum.

Hafsteinn gafst hins vegar ekki upp og hóf rekstur Kjöríss í húsnæði því sem hann hafði ætlað undir ostagerðina.

Hafsteinn var ekki lengi búinn að reka rjómaísgerðina þegar hann fékk bréf frá framleiðsluráðinu. Þar var honum tjáð að ekki væru lengur leyfðar niðurgreiðslur á mjólk og smjöri sem nota ætti til ísgerðar.

Hafsteinn neyddist þá til að skipta yfir í jurtaís enda var honum með þessu gert ómögulegt að keppa við Mjólkursamsöluna í verði á rjómaís. 

Þegar upp var staðið reyndist þetta andstreymi líklegast gæfa fyrirtækisins. Mörgum finnst jurtaísinn betri á bragðið og innviðir fyrirtækisins styrktust í baráttunni við framleiðsluráðið sem studdi Mjólkursamsöluna á þessum árum.

Saga Kjöríss er því baráttusaga matvælafyrirtækis í Hveragerði, fjölskyldufyrirtækis, sem hefur vaxið jafnt og þétt þótt framleiðsluráð hafi í frumbernsku þess reynt að bregða fæti fyrir fyrirtækið.

Kjörís stendur fyrir gott bragð og það fann krók á móti slæmu bragði framleiðsluráðs.

Veislugestir góðir!

Þetta er í 23. skipti sem Frjáls verslun útnefnir mann ársins í atvinnulífinu á Íslandi. Þetta eru elstu verðlaun í viðskiptalífinu á Íslandi.

Ég vil þakka Sigurði Má Jónssyni blaðamanni fyrir hið yfirgripsmikla viðtal í Frjálsri verslun. Ég keypti fyrirsögnina strax af honum um að Valdimar og systkini, sem hefðu alist upp með fyrirtækinu í rúm fjörutíu ár, væru með hálfa ísöld að baki.

Í dómnefnd Frjálsrar verslunar sitja auk mín eftirfarandi menn: Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, útgáfufélags Frjálsrar verslunar, en hann er formaður nefndarinnar. Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvikur og aðaleigandi Byko, og Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group.

Góðir gestir.

Vadimar Hafsteinsson er giftur Sigrúnu Kristjánsdóttur ljósmóður. Þau eiga þrjú börn, tvíburana Hafstein og Kristján, og Guðbjörgu.

Valdimar orðar það svo að tvíburarnir hafi fengið Hafsteins-genin en þeir bærður eru yfir tveir metrar á hæð og keppa í blaki með háskólanámi sínu í Danmörku.

Það er sagt að það séu breyttir tímar og að gömlu gildin séu komin aftur í íslenskt atvinnulíf. Í Kjörís hurfu þau aldrei. Fyrirtækið tók ekki þátt í kapphlaupinu.

Ágætu gestir:
Lyftum glösum.
Hér fer mjög hógvær maður sem við heiðrum.
Valdimar Hafsteinsson er maður ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2010.

Með auðmýkt og virðingu, segi ég:

Þína skál.

Takk.

Jón G. Hauksson

jgh@heimur.is


 

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is