leita

ELDRI PISTLAR

Undanfarna viku hefur pistlahöfundur eytt meiri tíma í að hlusta en flestar aðrar vikur ársins. Og það er að mörgu leyti ágæt tilbreyting. Þriðjudag og miðvikudag hélt Moshe Rubinstein námskeið um það hvernig menn reyna að sjá framtíðina fyrir. Og frá fimmtudegi til sunnudags voru Sjálfstæðismenn að marka sér framtíðarstefnu.

Óvenjumargir hafa haft samband við mig að undanförnu út af nýjustu Frjálsri verslun sem er helguð konum í viðskiptalífinu. Margar ábendingar eru um konur sem fólk telur að hefðu frekar átt heima á listanum án þess þó að sett sé út á þær sem þar eru fyrir. Bent er

Fátt er jafn ógnvekjandi í augum Íslendinga og fermingarveislur. Foreldrarnir sem halda þær kvíða umstanginu og kostnaðinum, fermingarbarnið kvíðir því að hitta tugi manna sem það veit ekkert hvað er og gestirnir vona í lengstu lög að þeir lendi ekki hjá „hinni“ fjölskyldunni. Samt blessast þær ótrúlega vel því


PISTLAR

04/03/2011 | 13:06

Ólgan innan Sjálfstæðisflokksins (JGH)

jong-2011Í ítarlegu viðtali mínu við Bjarna Benediktsson í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar er víða komið við. Ég spyr hann t.d. að því hvort hann telji að Icesave og Evrópusambandið eigi eftir að kljúfa flokkinn. Hann telur það útilokað og bendir á að flokkurinn hafi aldrei klofnað út af málefnum heldur mönnum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig bæði þessi mál þróast innan flokksins en sterk öfl innan hans, með Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrum formann flokksins, hafa farið mjög hart gegn honum í Icesave og búast má við uppgjöri á næsta landsfundi flokksins út af því máli.

Sama verður eflaust uppi á teningnum varðandi afdráttarlausa afstöðu hans gegn aðild að Evrópusambandinu, en í viðtalinu segir Bjarni það sína einlægu skoðun að ganga ekki í ESB.

„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ástæða til að stíga inn í Evrópusambandið því ávinningurinn jafni alls ekki út gallana við það,“ segir hann.

Þegar ég geng frekar á hann um samþykkt landsfundarins um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu svarar hann að það verði gert um leið og flokkurinn komist í stöðu til að gera það.

Ef viðræðuferlið heldur áfram, segir Bjarni að Sjálfstæðisflokkinn geti ekki hunsað þær viðræður. „Ég hef þá frumskyldu að gera allt til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.“

Bjarni segir í viðtalinu að hann efist um að aðildarferlið haldi áfram mikið lengur. „Ég spái því að það líði að leiðarlokum í viðræðuferlinu. Það er einfaldlega ekki heiðarlegt gagnvart viðsemjendum okkar að standa svona að málum.“

Hann segist gera sér fulla grein fyrir því að sumir fylgismenn flokksins hafi ekki kosið flokkinn síðast vegna ESB-stefnunnar. Hann telur hins vegar að þetta mál kljúfi ekki flokkinn; það sé breiður stuðningur innan flokksins gegn aðild að ESB.

Næsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður í haust eða í byrjun næsta árs.

Eitthvað segir mér að fundurinn verðir fjögugur og átakamikill miðað við umræður undanfarnar vikur. Bæði þessi mál taka í og ESB verður eflaust kosningamál í næstu kosningum og sömuleiðis held ég að ólgan vegna Icesave verði ekki hjöðnuð.

Um það hvort Bjarni geri ESB að frágangsmáli í hugsanlegum viðræðum við Samfylkingu eftir næstu kosningar.

„Já, enda sé ég ekki að Samfylkingin sé í aðstöðu til að setja neinum afarkosti um ESB. Málið er ekki á dagskrá hjá neinum flokki nema henni.“

Bjarni segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei klofnað út af málefnum heldur mönnum. Skoðum betur helstu átök manna innan flokksins.

Þar ber hæst skilnaður Alberts Guðmundssonar við flokkinn árið 1987 og átök formanns og varaformanns, Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen, sem urðu til þess að Gunnar myndaði mjög óvænt stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi í febrúar 1980 eftir árangurslausar stjórnarmyndunarviðræður á milli allra flokka á alþingi.

Sjálfstæðismennirnir Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson tóku sæti sem ráðherrar í þessari umdeildu ríkisstjórn Gunnars. Albert Guðmundsson var sömuleiðis tilbúinn til að verja hana vantrausti.

Ekki er þó hægt að ræða um eiginlegan klofning Sjálfstæðisflokksins í þeim skilningi að Gunnar, Friðjón og Pálmi stofnuðu ekki nýjan flokk. Ríkisstjórn Gunnars sprakk á vormánuðum 1983.

Stuðningsmenn Gunnars voru tilbúnir í sérframboð vorið 1983 en þrek Gunnars var búið vegna veikinda hans og hann sagði skilið við stjórnmálin. Hann lést um haustið sama ár.

Albert Guðmundsson klauf hins vegar Sjálfstæðisflokkinn árið 1987 þegar hann gekk úr honum og stofnaði Borgaraflokkinn sem fékk 7 þingmenn kjörna í alþingiskosningunum haustið 1987.

Þá má nefna nokkur sérframboð innan flokksins, eins og Sigurlaugar Bjarnadóttur, Eggerts Haukdals og Kristjáns Pálssonar. En það er önnur saga.

Bjarni ræðir í viðtalinu mjög opinskátt um menn og málefni; um ólguna innan flokksins, Icesave, ESB, Davíð Oddsson, framboð Péturs Blöndal á landsfundi, meðferð núverandi ríkisstjórnar á Geir H. Haarde, Steingrímur og Jóhönnu og hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð vopnum sínum aftur.

Mig langar engu að síður að grípa niður í samtal okkar þegar ég spyr hann um framtíðarsýn Íslands. Þar finnst mér hann nálgast svarið á athyglisverðan hátt.

„Mér finnst besta leiðin að horfa til framtíðar með því að horfa á hlutina langt aftur og spyrja sig: Hvernig komumst við hingað? Við vorum fátækasta þjóð í Evrópu en náðum að renna stoðum undir atvinnuvegina og samfélagið....

Við hljótum öll að spyrja okkur hvernig við getum fjölgað þessum stoðum.

Það er ekki hægt að reikna með stórauknum vexti í sjávarútvegi; stærð fiskistofnanna takmarkar vöxtinn og við veiðum ekki miklu meira magn.

Vöxturinn er sömuleiðis takmarkaður í stóriðjunni þótt þar séu vissulega sóknarfæri ennþá.

Menntun er lykilorðið þegar kemur að hagvexti framtíðarinnar á Íslandi; af henni spretta sprotar, nýsköpun og tækni; ný fyrirtæki og atvinnutækifæri; velmegun og fjölbreyttara mannlíf.

Þess vegna er það skammsýni að draga úr framlögum til menntunar. Hún laðar fram hugmyndir að atvinnusköpun og gleymum því aldrei að fyrirtækin fæðast hjá fólkinu – ekki í stjórnarráðinu. Mennt er máttur.“

Ég hvet ykkur til að lesa þetta viðtal við Bjarna, svo víða er komið við.

Þetta er ekki svonefnt drottningarviðtal heldur er dengt á hann áleitnum spurningum síðustu vikna og hann svarar hispurslaust og beint út - sem gerir viðtalið auðvitað læsilegra.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is