leita

ELDRI PISTLAR

Hún er fjörleg umræðan um það hvort taka eigi RÚV út af markaði auglýsinga og koma þannig í veg fyrir að auglýsendur geti auglýst þar. Keppinautar RÚV, þ.e. Stöð 2 og SkjárEinn, vilja eðlilega að engar auglýsingar verði hjá RÚV. Þar með sætu þeir einir að auglýsingum í sjónvarpi.

Dagurinn fyrir kosningar er alltaf sérstakur. Þetta er dagur kannana. Spennan er í hámarki og flestir gera lítið annað en að rýna í kannanir, spá og spekúlera, og bíða eftir umræðum leiðtoganna í sjónvarpinu um kvöldið. Þær tákna lok kosningabaráttunnar. Eftir þær er lítið hægt að gera. Þeir, sem

Ég spái því að Lilja Mósesdóttir stofni nýjan vinstri flokk á næsta ári. Svona á svipaðan hátt og Steingrímur J. ákvað að fylgja ekki gamla Alþýðubandalaginu á sínum tíma inn í Samfylkinguna. Hann stofnaði þess í stað Vinstri græna og hefur verið foringi flokksins frá upphafi. Hann hefur núna


PISTLAR

02/09/2011 | 19:01

Gula hættan (JGH)

jong-2011Enn og aftur er þjóðin að fara á límingunum; útlendingur vill fjárfesta á Íslandi. Ekki Þjóðverji eða Svisslendingur, heldur auðugur Kínverji. Kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum gætu meira að segja að sundrað ríkisstjórninni. Stjórnarandstaðan hefur reynt sitt til að koma stjórninni frá en lítið orðið ágengt – en svo kemur Kínverjinn eins og kallaður; ráðherrar eru þegar farnir að skjóta hver á annan og sprengja kínverja.

Margir hafa áhyggjur. Mér sýnist mest út af því að þetta er Kínverji.

Aðrir eru tortryggnir yfir þessum fréttum því þeim finnst Kínverjinn svo vitlaus að eyða 1 milljarði í kaupin á 72% jarðarinnar – en ríkið á hinn hlutann – og það að afsala sér öllum vatnsréttindum.

Flestir næðu þessari fjárfestingu ef hann héldi að það væri gull að finna á Grímsstöðum. Gullið sem hann sér er hins vegar í formi ferðaþjónustunnar. Kannski selur hann norðurljósin á veturna. Hann er sagður ljóðskáld, Einar Ben. var það líka.

Allir spyrja; hvernig ætlar hann að fá arð af þessari fjárfestingu? Ég spyr: Hvað kemur okkur það við ef maðurinn á fyrir kaupunum og vill fjárfesta þarna? Er þetta ekki hans mál?

Ekki skánar það þegar fjölmiðlar segja að hann ætli að fjárfesta fyrir 20 til 30 milljarða króna á jörðinni og gera hana að paradís ferðamanna með fimmstjörnu hóteli og golfvelli. Hver vill spila golf í næðingnum á Grímsstöðum á Fjöllum á sumrin? Það er varla hægt að grilla á kolagrilli þarna á hásléttunni um hásumarið án þess að leggjast sjálfur yfir grillið og skýla því fyrir rokinu.

Sagt er frá því í Forbes að hann sé á meðal ríkustu Kínverja og sagður eiga eitthvað um 100 milljarða króna. Hvers konar áhættudreifing er það að setja 20 til 30 milljarða í paradís á Grímsstöðum? Eru þetta ekki aðeins of mörg egg í sömu körfunni? Aðeins of mörg göt á þessum osti?

Hvað kann þessi Kínverji sem við kunnum ekki þegar kemur að fjárfestingum? Kann hann öll trixin í bókinni eins og Einar Bárðarson?

En hvers vegna er ekki öllum sama þótt Kínverji eigi Grímsstaði á Fjöllum, Breti, Bandaríkjamaður, Þjóðverji, eða Svisslendingur fyrst öllum hefur verið sama um hvaða Íslendingar hafa átt Grímsstaði til þessa og detta núna í lottó-pottinn, þ.e. segja Víkinga lottóið?

Jörðin hefur verið til sölu í mörg ár og enginn viljað kaupa hana. Það hefur enginn pælt í eignarhaldinu á Grímsstöðum til þessa – nema þá að jörðin seldist ekki sem væri slæmt fyrir eigendurna sem vildu selja.

Maður sem setur 1 milljarð króna í þetta land þykir augljóslega vænt um það og mun sinna því vel. Einstaklingar fara betur með land en hið opinbera, hirða það og rækta betur.

Ríkir Þjóðverjar og Svisslendingar hafa keypt jarðir um allt Ísland, t.d. jarðir við þekktar laxveiðiár. Ríkir útlendingar og Íslendingar hafa örugglega eytt nokkrum milljörðum á síðustu tíu árum til að kaupa jarðir. Enginn hefur sagt neitt við því og átti heldur ekki að segja neitt við því.

Ef Kínverjinn hefði stofnaði fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu hefði hann sjálfkrafa haft leyfi til að kaupa Grímsstaði.

Hvað geta landeigendur gert án leyfis? Þeir sem eiga sumarbústaði þekkja það vel að þeir geta ekki byggt 20 fermetra við bústaðina án þess að fá alls kyns leyfi og stimpla hjá byggingarfulltrúa. Það verður mikið um stimpla hjá Kínverjanum á næstunni.

Haft er á orði að Kínverjinn sé kommúnisti; ríkur kommúnisti og hafi auðgast í skjóli kínverska kommúnistaflokksins. Kínverskur kommúnisti og það ríkur; er hægt að vera tortryggilegri? Illa fengið fé?

Hann hefur fjárfest í Bandaríkjunum. Þar fagna þeir Kínverjanum. Við spyrjum okkur að því hvort hann sé í spillingunni – en þegar á reynir höfum við mestar áhyggjur af því hvort hann muni eingöngu nota Kínverja í vinnu á lúxushótelinu sem hann ætlar að byggja.

Gat verið! Ég fæ ekki vinnu hjá Kínverjanum heldur bara Kínverjar? Og hann sem stílar inn á kínverska hótelgesti sem ég get rætt við á táknmáli.

Annað er líka gruggugt. Kínverjinn kaupir land á Grímsstöðum á sama tíma og hlýnun jarðar á sér stað og ný siglingaleið gæti opnast eftir nokkra áratugi um pólinn – og það gæti þýtt umskipunarhöfn á Langanesi með líflegum viðskiptum. Grímsstaðir skipta auðvitað höfuðmáli í því plotti, ekki satt?

Þetta er auðvitað allt stórt samsæri hjá Nubo.

Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis, blandar sér í umræðuna með grein í miðopnu Moggans og hæðir Kínverjann með lélegum lopapeysubrandara.

Hann bætir þó um betur og segir að vegna „stærðarmunar okkar og kínversku þjóðarinnar getum við ekki vænst þess að eðlilegur samskiptagrundvöllur sé á milli þjóðanna – enda sé hann ekki fyrir hendi. Menning þjóðanna er gjörólík, siðir allir og stjórnarhættir.“

Mér varð raunar svolítið brugðið við þessa lesningu. Takið eftir: Menning þjóðanna er gjörólík, siðir allir og stjórnarhættir. Þessi Kínverji er gula hættan!

Halldór leggur til að Alþingi grípi inn í og reiði fram það fé, sem nauðsynlegt er til þess að tryggja eignarrétt íslensku þjóðarinnar yfir óbyggðum landsins. Það þarf sennilega að gera í einum grænum.

Hann hvetur sem sagt til stórfelldra kaupa þjóðarinnar á landi í eigu einstaklinga eða sveitarfélaga og enginn hefur séð neitt athyglisvert við til þessa – bara til að forða landinu frá vondum erlendum fjárfestum – ekki síst Nubo.

 „Við Íslendingar getum ekki og megum ekki sitja með hendur í skauti og láta erlenda auðjöfra kaupa upp öræfi landsins,“ segir Halldór.

Illa er komið fyrir Nubo. Íslenska ríkið ætlar skyndilega að bjóða betur og bauð Nubo samt vitleysislega hátt í jörðina að mati skattgreiðenda.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is