leita

ELDRI PISTLAR

Mogginn sagði um helgina frá rannsókn um að íslenskir fjölmiðlar hefðu verið hliðhollir Íslenskri erfðagreiningu í umfjöllun sinni. Ég hef ekki orðið jafnhissa síðan það kom fram að 99% Íslendinga héldu upp á jólin klukkan sex á aðfangadag. Stundum geta rannsóknir komið manni svona algerlega á óvart. Sérstaklega Morgunblaðinu

04. ágúst | Blóminn fagur (BJ)
Hvað gerir maður eftir að hafa unnið ofboðslega mikið í heila viku? Komið heim langt eftir miðnætti og farið út upp úr sjö á morgnana? Á föstudagsm0rgun kom út tekjublað Frjálsrar verslunar og að kvöldi var því kærkomið tækifæri til þess að slaka á. Og hvað gerði ég þá?

Kosningaúrslitin á laugardaginn eru áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Í Reykjavík sem á að vera höfuðvígi Ingibjargar og sérlegur kandídat hennar leiddi listann galt Samfylkingin afhroð. Á stöku stað náðu staðbundnar aðstæður að vega upp slaka frammistöðu foringjans. Reykjavík var þó aðalvettvangurinn og þar féll Samfylkingin á prófinu. Fyrir kosningarnar


PISTLAR

04/11/2011 | 09:56

Grikkinn Zorba (JGH)

jong-2011Það þykir klassískt lokaatriðið í myndinni Grikkinn Zorba þar sem Grikkinn kennir Englendingnum að dansa undir taktföstu laginu Sirtaki. Núna er kominn fram nýr Zorba, George Papandreuo, forsætisráðherra Grikkja, sem dansað hefur út og suður á dansgólfinu, en þó aðallega út – því hann virðist hafa dansað sig út af gólfinu sem forsætisráðherra.

Þetta hefur verið viðburðarík vika fyrir Papandreuo. Hann samdi um björgunarpakka við Sarkozy og Merkel og þau sögðust auðvitað vilja hjálpa Grikkjum og brostu framan í myndavélarnar.

Papandreuo ákvað að setja björgunarpakkann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var ekki rétti dansinn fyrir Sarkozy og Merkel - og hvað þá Englendinga - og þar með dansaði hann sig út af gólfinu.

Hann var tekinn á teppið hjá Sarkozy og Merkel og húðskammaður, hótað að engar greiðslur kæmu úr björgunarpakkanum og þjóðaratkvæðagreiðslan snerist í raun um hvort Grikkir ætluðu að vera í ESB og myntbandalaginu eða ekki.

Þar með var Papandreuo kominn í bobba og stuðningur við hann heima fyrir fjaraði út. Hann sá sæng sína uppreidda og sló þjóðaratkvæðagreiðsluna af.

Almenningur í Grikklandi sættir sig ekki við björgunarpakkann en vill ekki hætta með evruna.

Grikkir verða gjaldþrota á næstu vikum verði skrúfað fyrir lán til þeirra. Þeir geta ekki greitt út laun og eftirlaun um næstu mánaðamót fái þeir ekki hjálp.

Grikkjum finnst hins vegar björgunarpakkinn ekki duga og vera enn of þungur. Það er spennitreyjan sem þeir eru í.

Gríkkir fá afskrifuð 50% af lánum, þ.e. hið opinbera og bankarnir. Það finnst þeim ekki nægilega mikið og telja að þeir verði eins og „hamstur í hjóli“ að vinna fyrir franska og þýska banka næstu fimmtán árin.

Þeir hafa talsvert til síns máls.

Eftir björgunarpakkann eru skuldir gríska ríkisins 120% af  þjóðarframleiðslu. Opinberi geirinn í Grikklandi hefur blásið út síðasta áratuginn; meira en í öðrum löndum Evrópu.

Í björgunarpakkanum er Grikkjum ætlað að lækka laun í landinu, skera hressilega niður í útgjöldum hins opinbera, fækka opinberum starfsmönnum og hækka skatta.

Núna blasir við að Papandreuo segi af sér sem forsætisráðherra til að halda flokki sínum saman og að mynduð verði þjóðstjórn til bráðabirgða. Stjórnarandstaðan vill hins vegar kosningar strax.

Vandi Grikkja er auðvitað sá að þeir skulda of mikið og geta ekki greitt skuldir sínar. Vandi Frakka og Þjóðverja er sá að þeir hafa lánað langmest til Grikklands.

Björgun Grikklands snýst því ekki síst um að bjarga stórum bönkum í Frakklandi og Þýskalandi sem munu ekki ríða feitu hrossi frá viðskiptunum ef Grikkir borga ekki.

Við skulum því ekki dæma Grikki of hart þótt þeir hafi farið út af sporinu.

Hvorir voru vitlausari, Grikkir sem tóku lánin eða Frakkarnir og Þjóðverjarnir sem lánuðu Grikkjum út í eitt? Í öllum eðlilegum bankaviðskiptum situr bankinn uppi með vandann ef lántakinn verður gjaldþrota.

Það er í raun erfitt að átta sig á því að vandræði Grikkja, þessa litla lands fyrir botni Miðjarðarhafs, hafi sett heiminn á annan endann. Þetta er lítið hagkerfi innan Evrópu; vigtar um 2% innan ESB.

Evrópa sjálf er ekki nafli alheimsins þegar kemur að fjármálum. Stærstu hagkerfi heims eru Bandaríkin, Kína og Japan. Engu að síður hafa leiðtogar tuttugu öflugustu ríkja heims á fundi sínum í spilavítis- og kvikmyndahátíðarborginni Cannes mestar áhyggjur af skuldavanda Grikkja, Ítala og Evrópu.

Það er auðvitað kaldhæðislegt að Grikkinn Zorba var tekinn upp á eyjunni Krít. Grikkir blésu einmitt kerfið út hjá sér út á krít – en þeir öðluðust stóraukið lánstraust eftir að hafa tekið upp evruna árið 2002.

Það eru Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem halda utan um björgunarpakkann og björgunarsjóðinn sem hefur verið stofnaður vegna skuldavanda Evrópu.

Allar þjóðir á evrusvæðinu lögðu í púkkið í pakkann til Grikkja – Þjóðverjar og  Frakkar þó mest. Þjóðverjar hata núna Grikki og segjast 90% Þjóðverja að Grikkir ættu að yfirgefa ESB og myntbandalagið – þeir segjast búnir að fá nóg af óráðssíu Grikkja og vilja ekki halda þeim uppi lengur.

Björgunarsjóðinn vantar fé því vandinn er miklu stærri en Grikkland. Búið er að ræða við Kínverja en þeir eru tregir í taumi þangað til greiðist úr flækjunni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á líka að koma með meira kjöt í pottinn og þá reynir fyrst á Breta - en Grikkir skulda breskum bönkum lítið.

Breskir bankar hafa hins vegar lánað mikið tíl Ítalíu og þar skjálfa menn á beinunum af skelfingu yfir vandræðum Ítala. Það verður óbærilegur sársauki fyrir breska banka, mátti sjá skrifað í breskum blöðum.

Barrack Obama, forseti Bandaríkjanna, sem á undir högg að sækja vegna skuldavanda heimafyrir, talar digurbarkalega á toppfundinum í Cannes og krefst þess að Evrópa leysi skuldavanda sinn á næstu dögum.

Obama hefur ekki efni á að segja mikið – þótt hann tali mikið. Hann ætti frekar að einbeita sér að skuldavanda Kaliforníu. Þá ætti hann að minnast þess að það voru hinir eitruðu skuldabréfavöndlar á húsnæðismarkaðnum í Bandaríkjunum sem komu fjármálaóveðrinu af stað haustið 2008.

Evrópa beit á agnið varðandi húsnæðislánin í Bandaríkjunum og fjárfestu stærstu bankar Evrópu í þessum eitruðu bréfum og sitja enn uppi með þá vitleysu.

Donald Trump sagði árið 1994 þegar hann hafði reist sér hurðarás um öxl með byggingu spilavítis í Vegas: Ef þú skuldar bankanum 1 milljón ert þú í vandræðum. En ef þú skuldar bankanum þínum 1 milljarð er bankinn í vandræðum.

Þetta vita Grikkir. Þeir vita líka að þeir eru Dómínó-kubburinn sem má ekki fara af stað því spilið liggur um alla Evrópu og margir eru á því að vandi Gríkkja sé hátíð miðað við Ítalíu.

Angela Merkel sagði fyrir nokkrum vikum að það væri skuldakreppa á evrusvæðinu en ekki evrukreppa. Sennilega skiptir það ekki lengur máli hvað vandinn er kallaður. Hann virðist sá sami hvort sem maður skuldar í krónum, evrum, dollurum eða yenum. Vandinn er að skulda of mikið – og vandi banka er að lána of mikið.

Grikkir eru dómínókubburinn í dómínóspilinu. Bankar eru ekki bara að falla í Evrópu heldur fjármálakerfi Evrópu. Það þarf að tappa skuldum af og það ekki dugir að skilja þær eftir í pípunum.

En hver á að taka á sig skellinn? Skattgreiðendur í ríkjum Evrópu? Eða bankarnir sem lánuðu? Eða auðvitað Grikkir sjálfir? Svarið er ekki eins augljóst og sýnist.

Hver gerði Grikkjum grikk?

Ég set Zorba í tækið í kvöld – þróunin á fjármálamörkuðum í Evrópu hefur verið eins og bíómynd í hægagangi undanfarin þrjú ár og lokaatriðið hefur alltaf blasað við.

Kannski maður fari út á dansgólfið og taki nokkur spor - og dansi sig út af gólfinu.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is