leita

ELDRI PISTLAR

16. nóvember | Morgunn án Moggans? (BJ)
Ein áhrifamesta auglýsing sem höfundur man eftir er slagorðið: Geturðu hugsað þér morgun án Moggans? en það er erfitt að hugsa þá hugsun til enda. En nú er hins vegar svo komið að menn gætu staðið frammi fyrir einmitt þessum veruleika fyrr en síðar. Í sviptingum á blaðamarkaðinum hefur staða

Þjóðin er í klemmu um næstu helgi. Trúin á pólitíkusa hefur aldrei verið eins lítil og hún fer minnkandi ef eitthvað er. Í hugum fólks brugðust þeir meira og minna allir í bankahruninu. Engu að síður er ekki nema vika þangað til hún gengur að kjörborðinu til að kjósa

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, hvað þá vikan fyrir kosningar. Ég held samt að næsta vika verði fljót að líða og að hún verði bitlítil í pólitíkinni; altént miðað við hvernig pólitíkusarnir hafa nýtt síðustu vikur. Það hefur nánast bara eitt mál verið í


PISTLAR

18/11/2009 | 09:42

Tíu bestu staðirnir (BJ)

Listar eru vinsælir meðal blaðamanna. Hverjir eru tíu bestu söngvarar sögunnar, 100 vinsælustu plöturnar, langorðustu þingmennirnir, skemmtilegustu auðmennirnir. Síðasti listinn yrði kannski stuttur núna. Og þó. Steingrímur J. ætlar að ná þremur milljörðum í stóreignaskatti af þeim sem enn eiga peninga. Það er rétt að refsa þeim fyrir mistök hinna.

Þetta var útúrdúr, það er bara svo gaman að tala um Steingrím og skattana.

Ég hef leitt að því hugann hverjir séu tíu bestu staðir sem ég hef komið á. Og hvað gerir þá skemmtilega. Fyrsta vandamál er að heima er best og það er ekkert spennandi að setja það á listann því allir hafa komið heim (að vísu til sín en ekki mín).

Skilgreining sem ég vel er að einhver tilhlökkun eða minning fylgi staðnum. Sjáum hvort ég kemst upp í tíu:

1. Norðfjörður. Þegar ég var lítill fór ég alloft austur á land að heimsækja þar stóran frændgarð. Þar bjó amma, Unnur frænka á pósthúsinu og Reynir frændi, en ég var ekki vel klár á hvar hann vann. Reynir fór út á bát og keyrði um á flottum amerískum herbíl, karíðarhjólinu sem kallað var. Enginn segir jafnskemmtilegar sögur og hann. Hann kom stundum suður að hitta bankastjóra og ráðherra og ég var viss um að hann væri merkilegasti maður á Norðfirði. Ég er enn viss um það.
Á Norðfirði voru líka skemmtilegir krakkar. Ég lék við Ólu frænku svo lítið bæri á því maður flíkaði því ekki á þeim árum ef maður lék sér við stelpur. Þar var hins vegar alveg óhætt að sýna sig undir beru lofti með Jonna frænda og við fórum saman út í vita og upp í fjall (ég þorði ekki alla leið upp). Þó að ég hefði gaman af að lesa bækur sá ég að það var margt skemmtilegt hægt að gera úti á Norðfirði.

2. Tívolí í Kaupmannahöfn. Eiginlega var Tívoli ekki eins skemmtilegt og ég hafði vonað, en ég hafði hlakkað lengi til að koma þangað. Tívoli er eins konar fulltrúi fyrir Danmörku, en þangað fór ég í mína fyrstu utanlandsreisu 18 ára gamall. Þá var gaman. Við Siggi Kristjáns þvældumst víða og töluðum stoltir dönsku. Ekki þorðum við að fara í Kristjaníu þó að við gengjum framhjá henni á hverjum degi. Héldum að einhverjir bandittar myndu berja okkur. Þá voru líka alls kyns kynlífssýningarstaðir um borgina alla, en prúðir og vel upp aldir drengir eins og við létum þá framhjá okkur fara. Eitt kvöldið tókum auglýsingu frá einum slíkum og stungum í vasann. Ég held að flestir þessir staðir hafi verið nálægt strikinu. Svo vildi til að þegar við komum aftur í íbúðina til Guðrúnar systur þar sem við bjuggum var þar partý þar sem voru margir danskir vinir þeirra Ernsts. Við vorum spurðir að því hvað við hefðum helst séð á ferðum okkar og ég dró upp auglýsingablaðið. Upphófst þá hin mesta umræða meðal Dananna um að við hefðum verið snuðaðir. Þetta hefði greinilega alls ekki verið góð sýning og það væri hægt að fara á miklu svæsnari „show“. En aðspurðir svöruðu þeir því flestir að „nej, deværre“ hefðu þeir aldrei farið sjálfir.

3. New York. Þangað flugum við Vigdís í ágúst 1975 á leið í háskóla í miðríkjunum. Ég man ónotatilfinninguna milli herðablaðanna fyrsta daginn þegar við gengum inn í borgina. Sífellt leit ég við til þess að athuga hvort ekki væru bandittar á eftir okkur með byssur eða hnífa til þess að leggja milli herðablaðanna á mér. Í búðunum voru menn sem vildu selja okkur litlar tölvur á okurverði. „We are the only ones in town that sell them.“ Þegar ég sagðist hafa séð svona tölvu í Macys fyrir hálftíma sagði gaurinn: „We and Macys.“
Við fórum í Empire State bygginguna, á Wall Street og í Frelsisstyttuna. Okkur fannst við hafa víðar ratað. Sáum tvær bíómyndir: Jaw og Tommy. Þegar við komum út af Jaws var ég hræddur um að hákarlar gætu komið upp úr ræsunum og ráðist á okkur. Svo ákváðum við að fara á góðan veitingastað, Noa’s Ark, og keyptum okkur rækjukokteil. Hann var með stórum ógeðslegum rækjum og kostaði formúu. Við ákváðum að þjórfé hlyti að vera innifalið og borguðum það sem upp var sett, 18 dali minnir mig. Gegnum svo út. Síðan höfum við ekki verið aufúsugestir á Noa’s Ark.

4. Key West, syðst á Flórída. Við fórum víða um Flórída enda bjuggum við þar fjögur ár. Þar voru auðvitað margir eftirminnilegir staðir en það var sérstætt að aka alla leiðina suður eftir skaganum. Þetta var árið 1979 og Miami var ekki upp á marga fiska. Borgin hafði drabbast niður og við komum okkur þaðan eins hratt og við gátum. Svo ekur maður yfir hverja brúnna á fætur annarri þar til maður er kominn á þessa syðstu eyju. Við vorum með tengdaforeldrunum og með Steinunni, elsta barnið, með í för. Hótelið sem við gistum á var alveg syðst á eynni. Líklega höfum við gist tvær nætur. Um kvöldið fórum við á veitingastað. Key West var á þeim árum vinsælt athvarf samkynhneigðra og þjónarnir á veitingastaðnum báru kynhneigð sína mjög utan á sér eins og algengt var á þeim árum, og kannski enn. Við létum okkur það engu skipta. Daginn eftir barst þetta í tal milli okkar Vigdísar. Þegar tengdapabbi heyrði þetta svelgdist honum illilega á, því hann hafði ekkert tekið eftir þessu, sem þó hefði varla getað verið meira áberandi nema þeir hefðu borið auglýsingarskilti um hneigðir sínar. „Já var hann þannig já, blessaður,“ sagði tengdapabbi og við höfðum ekki geð í okkur til þess að segja að þeir hefðu allir verið í sama flokki. Svona voru Íslendingar óreyndir í þá daga.

Eyjan sjálf er einföld og skemmtileg. Við fórum í siglingu út í Bermúda-þríhyrninginn. Jóhannes sem fæddist sjö mánuðum síðar minnti á tilveru sína með ógleði Vigdísar (ekki að hann hafi verið leiðinlegur, það var eitthvað annað) en tengdaforeldrarnir fengu engar upplýsingar um hann. Um kvöldið gegnum við tengdapabbi út og spjölluðum. Það var eftirminnilegt því að þetta var eina skiptið sem við fórum einir út saman. Ég sé mest eftir að hafa ekki farið inn á Papa Joe, krá Hemmingways.

5. Trinidad. Við Vigdís keyptum sama  sumar miða með Eastern Airways á 300 dali, en á honum gátum við flogið hvert sem þeir fóru, svo lengi sem það var á þremur vikum. Við ákváðum að fara til Mexíkó og Karabía hafsins. Þetta var eftirminnileg ferð. Trinidad er syðst Karabíaeyjanna og þar er fjölbreytilegt þjóðlíf. Þegar við lentum blöstu við okkur myndir af forsetanum sem vakti alls staðar yfir okkur. Hermenn voru víða með byssur en allt var friðsamlegt. Við gistum í höfuðborginni Port of Spain. Mér fannst hvert einasta hús vera eins og úr ævintýri, þau áttu öll sín sérkenni og sögu, ólíkt fjöldaframleiddu húsunum í Bandaríkjunum. Á fyrsta degi réðum við okkur bílstjóra sem ók með okkur um allt. Hann var af indversku bergi brotinn og öllum að óvörum hófst ferðin í minjagripabúð, House of India. Við gengum brosandi um svæðið, en ekki höfðum við farið til Trinidad til þess að kaupa útskorna indverska fíla, þannig að ferðin hélt áfram. Eftir þetta hélt hann sig á mottunni. Kannski lét hann okkur borða á indverskum veitingastað. Þó er ég ekki viss.

Ég veit ekki af neinum stað þar sem fólk af jafnmörgum kynþáttum virtist geta búið saman í sátt og samlyndi. Þarna voru hvítir, svartir, brúnir, Indverjar og Kínverjar, fólk af spænskum uppruna og áströlskum. Stéttarskipting var örugglega mikil. Ég var svolítið upp með mér að minnst var á plantekru Ásu Guðmundsdóttur Wright í leiðsögubókinni, en þangað rataði Indverjinn ekki. Við keyptum kalypsu trommu, sem nú er týnd, en enginn á mínu heimili náði leikni á hana. Útskorni karlinn sem er að spila á slíka trommu er enn á sínum stað. Eftirá að hyggja þætti mörgum það gáleysislegt að fara með átta mánaða barn í svona ferð, en á misjöfnu þrífast börnin best. Í ferðinni lærði hún að ganga.

Framhald síðar

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is