leita

ELDRI PISTLAR

Á föstudaginn var, 12. febrúar var félagið Sjálfstæðir Evrópumenn stofnað í troðfullum sal í Þjóðmenningarhúsinu. Ég flutti þar meðfylgjandi ræðu: Fundarstjóri, góðir fundarmenn! Ég vil fyrir hönd þeirra sem hlutu kosningu í stjórn þakka fyrir það traust sem okkur er sýnt. Jafnframt lýsi ég ánægju

23. nóvember | Spjallað við bændur (BJ)
Að undanförnu hef ég farið víða og talað um Evrópusambandið og málefni tengd því. Í Garðabæ, á Akureyri, á Selfossi og í Reykjavík. Mér finnst umræðan hafi verið málefnalegri en oft áður. Fólk spyr vegna þess að það vill vita en ekki bara til þess að klekkja á ræðumanni

Ekki er öll vitleysan eins. Það nýjasta er að stjórnir nýju bankanna, sem kosnar voru til bráðabirgða, tóku sjálfar ákvörðun um að kaupa öll skuldabréf í peningamarkaðsssjóðum bankanna þriggja sem fóru á höfuðið og borguðu um 200 milljarða króna fyrir bréfin til að rétta sjóðina að mestu við. Stjórnvöld


PISTLAR

22/05/2006 | 00:00

Eins og Dagur og Nótt? (BJ)

Nú detta bæklingarnir vegna kosninganna inn um lúguna einn af öðrum. Á forsíðunni á einum eru Vinstri græn eru eins og klessa saman í hóp. Vinstra megin á myndinni er skuggalegur náungi sem liggur ofan á lítilli stelpu sem reynir að komast undan. Mér fannst eins og hann væri að segja við óttaslegna stúlkuna: Brostu meðan myndin er tekin. En kona mín segir mér að þetta sé fyrrverandi bekkjarfélagi hennar, vænsti maður sem hafi verið svo óheppinn að myndast illa í lélegri hugmynd frá auglýsingastofu. 

Björn Ingi er oftast einn á mynd og ekkert sérlega skuggalegur. Hann hefur ákveðið að láta kosningarnar snúast um sig. Eða þannig átti það að vera þangað til hann fór á taugum. Nú beinir hann spjótum að Sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og hótar stjórnarslitum komist hann ekki í borgarstjórnina. En hvaða bull er þetta? Nú er verið að kjósa í borgarstjórn og framsóknarmenn hafa verið þar í meirihluta í 12 ár undir forystu hins dáða leiðtoga síns Alfreðs Þorsteinssonar, sem skreytir hjá þeim listann í heiðurssæti. Kjósendur eru umfram allt að dæma um verk flokksins í borgarstjórn. Alfreð með risarækjurnar og Línu-net. Ef flokkurinn kemst ekki að í borginni ætti hann ef til vill að íhuga að setja Alfreð út úr byggingarnefndinni að hátæknisjúkrahúsinu. Hann hefur fengið að valsa nóg með peninga almennings og nú fær almenningur að segja sína skoðun. Björn Ingi er svo óheppinn að vera í forystu listans meðan Alfreð er á hinum endanum. Betur að þetta hefði verið svona fyrir tólf árum.

Da Vinci lykillinn

Ég sá hann á föstudaginn. Víst var búið að minnka væntingar hjá manni. Hárið á Tom Hanks fór ekki í taugarnar á mér en mér fannst leikurinn almennt ekki upp á marga fiska. Bókin var svakalega spennandi en mér fannst þetta Maríu Magdalenu plott óttaleg þvæla. Framleiðendurnir hafa séð að það höfðar til rugludallanna og þess vegna ekki viljað draga úr því. Nú er vitað að allir Íslendingar eru komnir af Ingólfi Arnarsyni, Agli Skallagrímssyni og meira að segja Jóni Arasyni sem var þó drepinn fyrir um 455 árum. María Magdalena sem var uppi fyrir 2000 árum á bara einn afkomanda á lífi. Er þetta ekki merkilegt?

Svo eru menn að velta því fyrir sér hvar hún er grafin. Það vill svo til að ég kom að gröf hennar í Frakklandi síðastliðið sumar. Hún er ekki á Louvres safninu í París heldur í smábænum Vézelay í Búrgúndí. Þar er mikil kirkja uppi á hæð og þar eru jarðneskar leifar Maríu í kjallaranum. Þetta varð til þess að pílagrímar stoppuðu við kirkjuna, til dæmis á leið sinni í krossferðir á 12. öld. En María hefur gert víðreist, sérstaklega eftir að hún dó, því að leifar hennar fundust líka í St-Maximin í Próvence. Þá fækkaði komum pílagríma að þessari gröf og fjölgaði hjá hinni, enda betra loftslag þar. Þegar ég hugsa mig betur um er hún kannski líka á Louvres. Þar væri hún aðgengilegri.

En svona bull eins og myndin byggist á er líklegt til þess að laða að alls kyns loddara sem skrifa bækur og halda námsskeið í Da Vinci fræðum. Og ruglað lið sem kaupir bækurnar og sækir námsskeiðin.

Silvía Nótt

Stundum missa grínarar þráðinn. Brandararnir verða of langir og áhorfendur missa áhugann. Yfirleitt er hafa menn tapað kímnigáfunni þegar þeir reiða sig á klúra og ógeðslega brandara. Þegar menn fara af stað með 70 milljóna brandara er eins gott að þeir séu fyndnir. Er ekki hægt að fara að hlífa okkur?

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is