leita

ELDRI PISTLAR

Ég minnist þess frá menntaskólaárum mínum að Sigmar heitinn í Sigtúni gekk eitt sinn út á dansgólfið og rak alla út af gólfinu. Þið megið ekki dansa, sagði hann hálfskelkaður. Þetta var laugardagskvöld fyrir páska og til voru einhverjar reglur um að fólk mætti vera inni á staðnum en að

Þetta hefur verið erfið vika hjá spæjurunum Harrý og Heimi. Þeir hafa verið í Landsdómi að hlusta á vitni og finna út úr orðum þeirra hvort Geir sé sekur. Þeir segjast engu vera nær og að þetta sé erfiðasta sakamál sem þeir hafa fengist við; glæpurinn liggi ekki alveg

04. janúar | Á tíundanum (BJ)
Jólabækurnar flæddu yfir landslýð, en hann var fjarri því að drukkna. Mér datt það í hug hvort flóðið minnti ekki á vatnavextina í Ástralíu sem þekur landsvæði sem nemur samanlögðu Frakklandi og Þýskalandi en nemur mönnum víðast ekki nema í hné. Ég óð ótrauður út í, en


PISTLAR

15/09/2006 | 17:55

Fjölmiðlalög og skúbb Blaðsins um 365(JGH)

Blaðið er byrjað að skúbba. Forsíðufrétt þess um stórfelldan niðurskurð innan fjölmiðlarisans 365 hefur breiðst út eins og eldur í sinu. Blaðið fullyrðir að NFS-stöðin verði lögð niður og að hætt verði að gefa út tímaritin Birtu, Sirkus, Hér og nú og Veggfóður. Auk þess sem útgáfa DV sé í uppnámi. Verði þetta raunin sannast enn einu sinni gamla spekin um „að það sem fer hratt upp fer aftur hratt niður“. Það er aðeins eitt ár síðan að NFS fór í loftið með lúðrablæstri og látum.

 

En lífið á fjölmiðlunum er raunar skrítið. Fyrir rúmum tveimur árum voru allir á því að svonefnd fjölmiðlalög, sem Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, var mikið í mun um að setja, væri hrein og klár aðför að fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og ætti eftir að tæta 365 veldið í sundur. Davíð var þá helsti óvinurinn. Þess vegna vekur hinn kröftugi niðurskurður 365 án „aðstoðar Davíðs“ verðskuldaða athygli.

 

Veldi 365 hefur þanist út af slíkum krafti undanfarin ár að undrun hefur sætt. Þar á bæ virðist allt hafa verið hægt og „peningar ekkert mál“ þegar nýir fjölmiðlar hafa verið settir á laggirnar. NFS, Birta, Sirkus, Hér og nú, Veggfóður. Fólk hefur verið lokkað af öðrum fjölmiðlum með gylliboðum um að taka þátt í ævintýralegum uppgangi 365. En núna virðist dagur að kveldi kominn hjá 365 – Fréttablaðið getur ekki lengur dregið eitt vagninn og staðið undir hallarekstri annarra miðla innan 365.

 

Miklar vangaveltur hafa verið um það hvort fréttir Blaðsins um niðurskurðinn hjá 365 séu orðum ýktar eða hvort þær séu yfirhöfuð réttar. Það sem hefur gefið skúbbinu meiri vigt en ella er seta Sigurjóns Magnúsar Egilssonar í stóli ritstjóra Blaðsins. Sigurjón er bróðir Gunnars Smára Egilssonar,  fyrrverandi forstjóra Dagsbrúnar; mannsins sem byggði veldi 365 upp með hinum mikla hraða.

 

Það sannast í tilviki bræðranna Sigurjóns Magnúsar og Gunnars Smára að þeir njóta oft ekki eldanna sem kveikja þá. Þeir stofnuðu Fréttablaðið og gerðu það að því sem það varð á skömmum tíma. Að vísu fór Fréttablaðið kollhnís í fyrstu atrennu en eftir að Baugur og Jón Ásgeir komu að því fóru hjólin að snúast. Núna eru þeir bræður báðir horfnir af vettvangi í Skaftahlíðinni. Það sem meira er, búið er að slíta öll tengsl Gunnars Smára við Fréttablaðið og annarra 365 miðla hér heima. Hann var arkitektinn að veldinu en hans hlutverk er núna að vinna lönd í Danmörku.

 

Skúbb Blaðsins um 365 veldið verður eflaust til þess að Dagsbrún, sem rekur 365, gefur út nákvæma útskýringu á því sem framundan er – og hvort allur sá niðurskurður sem Blaðið segir að sé í vændum eigi við rök að styðjast. Hér verða stjórnendur Dagsbrúnar og 365 að vinna hratt því mikið er í húfi fyrir starfsmenn 365 að allri óvissu sé eytt hið snarasta. Þá er Dagsbrún skráð í Kauphöllinni og hún þarf að vita hvort verið sé að bylta 365 fjölmiðlarisanum.

 

Auðvitað er frétt Blaðsins um niðurskurðinn hjá 365 ekki gleðifréttir fyrir þá fjölmörgu starfsmenn sem þar starfa – hvað þá ef fréttirnar eru ekki orðum auknar. Það sannast hins vegar núna að auðvitað þarf engin sérstök lög um „takmarkað eignarhald á fjölmiðlum“ – það eru hluthafarnir sjálfir sem takmarka eignarhald sitt á fjölmiðlum og hafa skoðun á því hvernig þeir séu reknir og gera þær breytingar og byltingar sem þeir telja að þurfi.

 

Það verður óneitanlega forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála hjá 365. Ekki verður annað séð en að 365 geti af eigin rammleik farið í gegnum hreinsunareldinn án þess að „sökudólgarnir“ séu Davíð og fjölmiðlalögin (sem urðu raunar aldrei að lögum).

 

Sennilega kveikja þingmenn núna á þvi að það er fyrst og fremst taprekstur fjölmiðla sem takmarkar eignarhald á fjölmiðlum. Stundum þarf bara engin lög. Skrítið.

 

Jón G. Hauksson

 

 

jgh@heimur.is

 

  

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is