leita

ELDRI PISTLAR

Jóhönnu hefur verið stillt upp við vegg. Fínt. Þó fyrr hefði verið. Ferð Steingríms J., Bjarna og Sigmundar Davíðs til Haag í Hollandi að ræða um lausn á Icesave án Jóhönnu segir allt sem segja þarf. Hún hótar ekki lengur stjórnarslitum fari Vinstri grænir ekki eftir hennar höfði í

29. nóvember | Hamingjan og pyngjan (BJ)
Enginn þykir leikmaður með mönnum nema hann sé beðinn að flytja pistil í kirkju á aðventunni. Fram til þessa hefur engum dottið í hug að biðja undirritaðan um þetta. En aðventan hófst í gær og hér er pistill sem ég get flutt þegar kallið kemur: Það var í tísku

Ingibjörg Sólrún vann. Ekki kemur það á óvart og heldur ekki hve stór sigurinn er. Skoðanakannar höfðu sýnt þetta, síðast nú á okkar vefsvæði fyrir nokkrum dögum. Það var greinilegt að hún leit á þessa kosningu sem formsatriði. Hún var hvorki hræð ná klökk. Eftir svona kosningar reyna menn


PISTLAR

12/12/2011 | 00:00

Höfundur bókarinnar (BJ)
upplesturNú lendi ég stundum í því á mannamótum að einhver veit að ég hef gefið út bók sem ég skrifaði sjálfur. Hafi sá hinn sami orð á þessu verður alltaf einhver annar vandræðalegur og veit greinilega ekkert af þessum brekum mínum, en reynir að fiska í gruggugu vatni til þess að kanna hvort bókin er greinasafn, stærðfræðiformúlur eða ferðasögur. Þegar sá sem hóf orðræðuna segir að þetta séu smásögur hlær sá sem ekkert vissi vandræðalega og spyr svo: Hvernig bók er þetta í alvöru?
 
Engan hef ég enn hitt sem hefur lesið bókina en margir segjast hlakka til að gera það. Þetta er svona eins og segjast hlakka til að lesa Stríð og frið eða Fjallkirkjuna. Maður ætti að gera það, en veit vel að það gerist aldrei. Ekki það að mín bók sé jafnlöng þeim en af því að ég gaf hana ekki út sem hljóðbók finnst mörgum það óbærileg tilhugsun að lesa 154 blaðsíður. Ég hef reynt að hughreysta fólk með því að segja að einmitt vegna þess að þetta séu smásögur sé hægt að lesa þær í bútum.
 
Einhver spurði mig hvort hún hefði fengið einhverja dóma, en ég svaraði að því miður hefði það ekki verið. Hinn sem á bókina og gæti hafa reynt að byrja á henni sagði um hæl: Líklega sem betur fer. Mér fannst hann segja þetta af fullmikilli sannfæringu.
 
Það er of mikið sagt að ég hefi engin viðbrögð fengið. Tengdamamma sagði að þetta væri prýðileg bók og hún hefði skemmt sér ljómandi vel yfir henni. En hún er ekki beinlínis hlutlaus dómari. Þó að þetta hefði verið formúlukver eða bók um fluguhnýtingar hefði hún sagt mér að hún hefði skemmt sér ljómandi vel.
 
Ég varð reyndar svolítið upp með mér um daginn þegar ég fór í leigubíl og bílstjórinn spurði hvort ég væri ekki höfundur Kattarbrossins. Bókin heitir Kattarglottið, en þetta var nú ókunnugur maður, afkomandi Guðrúnar frá Lundi. Einhver sagði mér að þegar leigubílstjórar væru farnir að mæla með hlutabréfakaupum ætti maður að selja öll sín bréf. Þess vegna er ég ekki viss um að þetta hjálpi sölunni mikið.
 
Annars verð ég að játa að fyrstu dagana á eftir leið mér svolítið eins og Halldóri Laxness sem kom heim aftur til Íslands árið eftir að hans fyrsta bók, Barn náttúrunnar, kom út. „[Ég hélt] að allir í Reykjavík mundu nema staðar á götunni og benda æpandi á höfund bókarinnar. Fyrstu dagana eftir að ég kom heim gekk ég aldrei í Austurstræti, heldur smó í gegnum Hafnarstræti þar sem er færra og lítilfjörlegra fólk en í Austurstræti; að minstakosti ekki eins vel að sér í bókum.“
 
Mér hefur tekist að ná nokkrum upplestrum og hef þá tekið það ráð að stilla mér þannig upp að fólk eigi erfitt með að lauma sér út meðan á lestri stendur. Elliheimili og sjúkrahús eru vinsæll vettvangur því að þar á fólk erfitt með gang. Þar er líka heyrnarsljótt fólk sem kærir sig kollótt um hvað það heyrir ekki.
 
Ég sá það í ritdómi um annað smásagnasafn í dag að sögurnar gengju ekki allar upp. Það fannst mér ósanngjarn dómur þó að ég hafi ekki lesið umrætt safn. Hvað veit dómarinn um hver hugsun höfundar var. Kannski átti sagan aldrei að „ganga upp“. Kannski var það einmitt meiningin að sagan gengi ekki upp fremur en erfitt deilingardæmi sem skilur eftir sig heilmikinn afgang.
 
Svona er ég strax orðinn kollegahollur rithöfundur. Ég vænti þess að fá sambærilega vörn ef einhver heldur að ég hafi skrifað sögur sem áttu að ganga upp. Deiling sem gengur upp skilur ekkert eftir sig. Afgangur núll. Vonandi er einhver afgangur hjá þeim sem klára að lesa mínar sögur.
 
 
Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is