leita

ELDRI PISTLAR

Samfylkingin vekur athygli þessa dagana. Á flokksstjórnarfundi ákvað formaðurinn að breyta Samfylkingunni í Framsóknarflokk. Flokk sem hefur lítið fram að færa annað en að vera á móti Sjálfstæðisflokknum. Formaðurinn er líka í einkastríði við Morgunblaðið , stríði sem enginn botnar í nema kannski formaðurinn sjálfur. Blaðið , sem formaðurinn

Ég er seinn með pistil og verða að bera við önnum, þó að ég sé ekki alveg klár á hverjar þær eru. Hef náttúrlega þurft að fylgjast náið með máli DSK eins og við vinir hans köllum hann. Það er svolítið töff að heita svona upphafsstöður. HKL var einu

Snorri, Sturla, Sighvatur og þeir frændur allir hafa fylgt mér undanfarnar vikur. Við Vigdís ákváðum að fara á námskeið í Sturlungu hjá Magnúsi Jónssyni (allir spyrja, er hann náunginn sem tók við af Jóni Bö. og það er rétt, en Magnús er prýðilegur einn og sér og þarf ekkert að


PISTLAR

13/01/2012 | 16:43

Nýtt lögheimili (JGH)

jong-2011Ég ætla að skrá mig til heimilis í Seðla- bankanum og bæta enn á það heimilsböl sem þar ríkir. Hvar annars staðar í heiminum gæti það gerst að seðlabankastjóri fari í mál við eigin banka út af launakröfum? Þetta er hætt að vera fyndið. Ímynd bankans hefur beðið hnekki. Þetta snýst ekki lengur um  hvort launasamningur, sem hann gerði á laun, fái undanþágu frá lögum sem sett voru um kjör seðlabankastjóra eftir að hann kom til bankans.

Samkvæmt þeim lögum voru m.a. 22 ríkisforstjórar lækkaðir í launum svo þeir hefðu ekki hærri laun en forsætisráðherra.

Már fer í mál við bankann sem hann stýrir. Segist í raun vera að berjast við kjararáð. Lögmaður hans segir að í grunninn sé þetta vinnuréttarmál frekar en kjaramál. Honum bauðst sumarið 2010 launahækkun en sagði þá við Stöð 2 að ekki hefði komið til greina að þiggja hana. Fer engu að síður í mál við bankann um að fá ógildingu á úrskurði kjararáðs og hærri laun.

Maður gæti trúað að sérvitringur í lítilli ríkisstofnun færi á flug og missti sig. En að þetta sé sjálfur bankastjóri Seðlabanka Íslands sem á í hlut fær alla til að staldra við og hugsa málefni bankans alveg upp á nýtt.

Þegar ég segist ætla að skrá mig til heimilis í Seðlabankanum við Kalkofnsveg 1 þá er það auðvitað til komið af einni merkilegustu frétt vikunnar. Hún er í Morgunblaðinu um að hægt sé að skrá sig til lögheimilis án þess að þinglýstur eigandi húsnæðis viti af því.

Ekki veit ég hversu margir eiga lögheimili heima hjá mér. Ég mun kanna það nánar eftir helgi. Hins vegar er spurning hvort ég sjálfur stingi mér ekki niður á heimili einhvers í Skilmannahreppi sem er með lægsta útsvarið og þar eru sagðar mestar tekjur á íbúa.

Auðvitað er samt erfitt að slíta sig frá sand- og saltberanum Jóni Gnarr sem segist stoltastur af verkum sínum sem borgarstjóri hversu vel var skreytt í miðbænum um jólin.

Einhvern tíma las þulur upp í útvarpi auglýsingu þar sem sagt var Skilamannahreppur. Það táknaði væntanlega að þar byggju skilamenn.

Krafa Más seðlabankastjóra ætti auðvitað að vera að hann og bankinn skráðu sig til lögheimilis í Skil(a)mannahreppi þar sem menn standa í skilum og efna gefin loforð þegar kemur að kjarasamningum.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að fólk megi eingöngu skrá sig til heimilis í íbúðarhúsnæði en ekki í Alþingishúsinu, Stjórnarráðinu, kirkjum og svo framvegis.

Ég spyr bara; er ekki hægt að fara framhjá þessu ákvæði varðandi Seðlabankann?

Stjórnarráðið hefur áður hliðrað til á bak við tjöldin þegar kemur að Seðlabankanum. Már og Jóhanna sömdu t.d. um laun Más á sínum tíma án þess að hafa nokkru sinni samband við hvort annað – og allar síst út af launa- og ráðningarmálum.

Einhverjir tölvupóstar gengu að vísu á milli. Það heitir víst ekki að vera í sambandi. Maður slítur sambandi hins vegar með sms.

Er nema von að kjaramál Más séu á reiki og laus í reipunum.

Stjórnarráðið fengi aldrei inni með lögheimili sitt í Skil(a)mannahreppi. Það stendur aldrei í skilum þegar kemur að kjarasasamningum. Það þekkir Már og það þekkja ASÍ og Samtök atvinnulífsins.

Í stjórnarráðinu er komin hefð fyrir því að lofa einhverju en standa ekki við það. Spyrjið Má, Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Egilsson.

Auðvitað hættir maður hjá BIS bankanum í Sviss þar sem maður hefur 5 milljónir á mánuði, skattfrjálsar, til að verða láglaunamaður í Seðlabankanum við Kalkofnsveg. Það hlýtur að vera eitthvað annað sem rekur slíkan mann til Íslands en launin – ekki satt?

Vel á minnst; hvers vegna eru launin hjá BIS bankanum skattfrjáls?

Það virðast allir vera að gera það gott nema ég sem bý við ofurskattagleði Steingríms J. og Oddnýjar.

Laun seðlabankastjóra eru í föstum skorðum.

Samkvæmt lögum skal kjararáð ákveða laun seðlabankastjóra, líkt og annarra ríkisforstjóra, en bankaráði er þó heimilt að ákveða „önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni“ seðlabankastjóra.

Takið eftir að slík ákvæði er ekki í lögum um aðra forstjóra ríkisins.

Í ágúst 2009 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um kjararáð sem kváðu á um að kjararáð skyldi ákveða laun og starfskjör forstjóra ríkisstofnana. Kveða lögin á um að föst laun fyrir dagvinnu skuli ekki vera hærri en föst dagvinnulaun forsætisráðherra og voru 22 ríkisforstjórar lækkaðir í launum.

Þetta brölt var gert að frumkvæði  Jóhönnu forsætisráðherra. Hún kom lögunum í gegn.

Allt í einu bitu lögin í skottið á sér. Vegna þess að þegar á reynir eru sumir jafnari fyrir lögunum en aðrir – að mati jafnaðarmanneskjunnar miklu – ekki síst þegar kemur að lögum um launakjör seðlabankastjóra sem hún hafði engin afskipti af.

„Launakjör seðlabankastjóra eru á forræði kjararáðs,“ segir Svanhildur Kaaber, formaður kjararáðs í samtali við Morgunblaðið.

 „Ég get ekki séð hvernig einhver annar getur haft áhrif á þau. Kjararáð ákveður laun seðlabankastjóra samkvæmt lagatilskipunum undir þeim hömlum sem lögin setja um viðmiðun við forsætisráðherra,“ segir Svanhildur.

Anna Lilja Þórisdóttir blaðamaður spyr áfram: En hvaða tilgang hefur þá málshöfðun gagnvart Seðlabankanum fyrst bankinn hefur ekkert um launin hans að segja?

„Ég get ekki haft neina skoðun á því,“ segir Svanhildur.

Víst Svanhildur; við getum öll haft skoðun á því eins og öðru sem við skiljum hvorki upp né niður í - en höfum mikla skoðun á.

Fyrir alla muni. Út af borðinu með þessa vitleysu. Það er ekki boðlegt að seðlabankastjóri fari í mál við eigin banka í baráttu sinni við kjararáð.

Ella verða menn að leita sér að nýjum lögheimilum.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is