leita

ELDRI PISTLAR

Stundum geta tvö bjórglös orðið að umræðu um evru og krónuna. Við hjónin vorum í Óðinsvé í Danmörku á dögunum. Þetta er fallegur bær. Eftir að hafa skoðað hús skáldsins H.C. Andersen fengum við okkur sæti við borð á veitingastað á ráðhústorginu í Óðinsvé. Þetta var í hádeginu. Það

23. maí | Gott fyrir mig (BJ)
Ég sá að Halldór Ásgrímsson ætlar að bæta leiðirnar á Esjuna. Halldóri finnst gaman að ganga á fjöll og vill að ríkið styðji það áhugamál hans. Ég hef líka gaman af því þegar ríkið gerir það sem kemur sér vel fyrir mig. Oft á maður auðvelt með því að

Óperan Ragnheiður sem flutt var um helgina í Skálholti er magnað verk sem gefur tilefni til þess að rifja upp söguna sem að baki býr. Þrátt fyrir að flest fólkið sem í óperunni kom fyrir eigi sér fyrirmyndir í raun og veru, og til hafi verið fólk sem hét þessum


PISTLAR

02/07/2006 | 23:25

Pulsur án landamæra (BJ)

Ég man ekki eftir mörgum deilum um grandvallaratriði í mínu hjónabandi. Þrjú atriði voru þó útkljáð mjög snemma. Það fyrsta og mikilvægasta var hvort maður ætti að segja pulsa eða pylsa. Ég hélt að um slíkt þyrfti ekki að ræða. Pylsa væri hátíðlegt mál sem notað væri í þjóðhátíðarræðum og á skiltum pulsuvagna, en pulsa væri það sem allir Íslendingar borðuðu til hátíðarbrigða. Pulsur voru alltaf minn uppáhaldsmatur. Ég var ekki mikil fiskæta, en einu sinni var boðið upp á fiskpulsur, líklega á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll. Þetta var auglýst með góðum fyrirvara og ég mætti á staðinn og hlakkaði ósköpin öll til að fá nú fisk í þessum hátíðabúningi. Fiskpulsurnar voru hvítar þannig að ekki þurfti að velkjast í vafa um að þetta væru ekki venjulega pulsur. Lyktin var eins og af fiskbúðingi og bragðið eins og af ofsoðnum vatnsósa fiskbúðingi. Þessi matur sló hvorki í gegn hjá mér né þjóðinni.

Danir halda að þeir séu mikil pulsuþjóð og eru með pulsuvagna á hverju horni og stundum nokkra þar á milli líka. En í raun vita þeir ekkert, skilja ekki einu sinni hvað maður á við þegar maður biður um En pölse. Hvað halda þeir að maður sé að biðja um, hamborgara og franskar? Það var ekki fyrr en ég bað um En hot dog að ég fékk afgreiðslu. Svo sá ég að þeir seldu Jolly kóla sem mig hafði alltaf langað óskaplega mikið í síðan ég sá það auglýst í Andrésblöðunum í gamla daga. En þeir þekktu ekki Jolly kóla og það var ekki fyrr en ég benti á flöskuna (konan seldi límonaði og sódavatn fyrir utan Jolly kóla og pulsur). Þá leit konan á mig vorkunnaraugum og sagði: En Djolly kóla! Hvars vegna er verið að kenna okkur dönsku í öll þessi ár til þess eins að biðja um Hot dog og Djolly kóla?

Hvers vegna er pulsan, þessi ágæti þjóðarréttur mér ofarlega í huga núna? Jú, nú er sýning í Nýlistasafninu (Living Arts Museum, ef einhverjir Danir skyldu lesa þetta) undir nafninu Kalbasoj sen Limoj, sem þýðir eins og allir vita Pulsur án landamæra (þetta hefur að vísu misritast í prentaðri dagskrá, en þar stendur „pylsur“ en það er örugglega hluti af listrænni upplifun við sýninguna.

Meginþemað á sýningunni í Nýlistasafninu er postulín sem list. Verkin eru mjög frumleg. Eitt heitir glas á fæti og það er mjólkurglas á mannsfæti (úr postulíni). Annað er postulínsdiskar sem hafa brotnað í sundur og hafa verið límdir saman aftur í þrívídd. Í gamla daga brotnaði einn svona jólaplatti frá Georg Jensen í partíi heima hjá mér og við fórum um allan bæ að kaupa nýjan svo að mamma sæi ekki hvað gerst hefði. Þar vorum við vitlausir því að þarna var búið að líma þennan sama platta saman (Julen 1971) og hann er nú dýrmætt listaverk. Ef við hefðum gert þetta værum við núna frægir listamenn. En ég er reyndar ekki alveg viss um að mamma hefði skilið þetta verk rétt vel.

Svo er þarna líka gjörningur á myndbandi þar sem listakonan les texta fyrir útlenda konu sem endurtekur án þess að skilja nokkurn skapaðan hlut. Það er fátt eins áhrifamikið (og þeir sem vita minna um list hefðu sagt fyndið, en það er auðvitað ekki ætlunin) eins og heyra útlendinga fara með alls kyns klám og dónaskap sem þeir skilja ekkert í.

Verkið sjálft, Kolbasoj sen Limoj,  blasir við manni þegar maður kemur inn. Það er málað á vegginn: Kind + kornax + paprika = pulsa með öllu.

Þetta er mikil upplifun sem maður verður að reyna sjálfur því lýsing mín þó að góð sé skýrir þetta alls ekki fyllilega. Listamennirnir Olof Olsson (líklega Svíi sem heldur að maður borði pulsur með papriku) og Daniel Salomon eru miklir gleðigjafar og standa fyrir gamanþætti í sjónvarpi og knattspyrnuliði. Ef einhver af lesendum þessa dálks hefur misst af þessari sýningu skal bent á að Nýlistasafnið er að Laugavegi 26, gengið gegnum port með veggjakroti, upp á Grettisgötu þar sem safnið er. Opið milli 13 og 17 alla daga, enginn aðgangseyrir, svo að maður á enn fyrir pulsu og kók að sýningunni lokinni.

PS Mjög margir lesendur hafa kvartað undan góðu gengi franska liðsins, en eins og sjá mátti hér á síðunni fyrir viku stóð það alls ekki til. Allt á sér sínar skýringar eins og lesa má hér. (Smellið á orðið hér, leiðbeining fyrir danska pulsusala).

PPS Hin grundvallaratriðin?
a) Kauptu pulsu eða keyptu pylsu.
b) Kauptu pulsu með tómat og sinnepi eða keyptu pylsu með túmat og sinnepi

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is