leita

ELDRI PISTLAR

02. september | Hrein vinstristjórn (JGH)
Steingrímur J. Sigfússon ræður sér ekki fyrir kæti út af nýrri „hreinni vinstristjórn“. Það er komin hrein pólitísk stjórn tveggja vinstri flokka, segir hann hróðugur og bætir við að það sé í fyrsta sinn á Íslandi. Einhverjir kynnu að halda að ný stjórn með nýjum flokkum hefði tekið við

Það þykir ganga guðlasti næst að efast um gæði lýðræðisins, en þó hafa ýmsir gert það. Auðvitað er lýðræði tiltölulega nýtt stjórnunarform. Lengst af var einhvers konar stjórnarfar sem tengdist stétt og stöðu það sem gilti um víða veröld. Henrik Ibsen, sem hhhhafði reyndar margt á hornum sér sagði í

„Lífið er það sem gerist meðan maður er að hugsa um eitthvað annað.“ Eitthvað á þessa leið söng John Lennon, en hann stal þessu örugglega frá einhverjum öðrum. Auðvitað skiptir það ekki máli hver sagði þetta fyrst eða svosem hve mikið vit er í því. Þetta er eftirminnileg setning.


PISTLAR

02/03/2012 | 11:13

Stormurinn fýkur (JGH)

jong-2011Það hefur verið stormasamt þessa viku og þá eðlilega fjúka margir; hvort heldur þeir eru í flokkum eða eftirliti fjármála. Það ætti ekki að koma á óvart að stormurinn fýkur, það er eðli hans, samt kemur það á óvart í þetta skiptið. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, oftast kallaður Siggi stormur, er hættur í Samstöðu, flokki lýðræðis og velferðar en þar var hann í forsvari ásamt Lilju Mósesdóttur þingmanni.

Ég heyrði þeirri kenningu fleygt að Sigurður hafi fokið vegna þess að í forystusveit flokksins var óánægja með hvað hann fékk mikla athygli. Ekki veit ég til hvers Lilja fékk Sigurð með sér nema einmitt af þeirri ástæðu að hann er þjóðþekktur maður og væri líklegur til að draga að sér athygli og fiska atkvæði.

„Það vantar C-vítamín,“ var meðal þeirra slagorða sem sátu eftir í hugum fólks eftir kynningarfund Samstöðu. Núna er samstaðan augljóslega rofin. Stormurinn skyggði á aðra, að sagt er.

Lilja Mósesdóttir er hinn óumdeildi foringi flokksins, stofnaði hann og flokkurinn er byggður í kringum hana. Á því lék enginn vafi þótt Sigurður veðurfræðingur væri í forystusveitinni og ræddi um C-vítamín.

Brotthvarf Sigurður Þ. Ragnarssonar getur varla talist stórpólitísk tíðindi nema fólk telji það veikja ímynd Samstöðunnar og dragi úr fylgi við hið nýja stjórnmálaafl.

Samstaða Lilju fékk í nýlegum skoðanakönnunum um 21% fylgi og mældist annar stærsti flokkurinn og með meira fylgi en Samfylking og Vinstri grænir til samans.

Það voru stórpólitísk tíðindi. Fylgið kom öllum á óvart og það þótti fyllsta ástæða til að taka þetta framboð alvarlega.

Það er þekkt að sumir flokkar fái talsvert meira fylgi í könnunum en kosningum. Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur fékk um tíma 25% fylgi í könnunum en það fylgi skilaði sér ekki í kassana. Alþýðuflokkurinn sálugi fékk oft meira fylgi í könnunum og þekkt er að Sjálfstæðisflokkur mælist yfirleitt með meira fylgi í könnunum en kosningum.

Í mínum huga er enginn vafi á því að ef Samstaða fengi 21% fylgi í næstu kosningum og úrslitin yrðu í takt við síðustu könnun væri það framlenging á þeirri vinstristjórn sem núna situr.

Það er íhugunarefni fyrir stjórnarandstöðuna að mælast ekki með meira fylgi. Sjálfstæðisflokkur með 35% fylgi í könnunum telst frekar lítið þótt flokkurinn sé langstærsti flokkurinn. Framsóknarflokkur með 12,5% fylgi og þriðji stærsti flokkurinn telst líka heldur lítið á þeim bænum eftir þá umdeildu ríkisstjórn sem er við völd.

Mál Gunnars Þ. Andersen er hið sérkennilegasta. Hver trúir því að svör hans til Fjármálaeftirlitisins árið 2001, þegar hann vann fyrir ríkisbankann Landsbankann (sem að vísu var þá orðinn hlutafélag í eigu ríkisins), sé ástæða fyrir uppsögn hans hjá Fjármálaeftirlitinu 2012?

Svo þessi hasar með að reka hann á staðnum og kæra hann til lögreglu gerir málið einhvern veginn enn flóknara. Allt í einu blandast Guðlaugur Þór Þórðarson og fjármál hans í málið en Gunnar segir það rangt.

Vandinn er sá að það er svo margt ósagt í þessu máli. Fólk hefur það á tilfinningunni að ástæðan sé einhver allt önnur en komið hefur fram opinberlega.

Þetta er eins og með kauptilboð Núbós í Grímsstaði á Fjöllum fyrir 1 milljarð og áform hans að byggja þar golfvöll og stórbrotna ferðaþjónustu. Það hversu ótrúlegt þetta var allt saman varð til þess að fólk efaðist. Þess vegna spurðu menn hver annan; hver er hin raunverulega ástæða þess að Núbó vill kaupa Grímsstaði?

Ýmsar samsæriskenningar eru komnar á kreik um það hvers vegna Gunnar Þ. Andersen var látinn fjúka upphaflega. Ein er sú að hann hafi ruggað einhverjum bátum? Hvaða bátum? Stjórnmálamanna eða útrásarvíkinga? Sögur fara á kreik.

Það nýjasta í málinu er að að lögmaður Gunnars, Skúli Bjarnason hæstaréttarlögmaður, segir sig frá því og talar um trúnaðarbrest hans og Gunnars Þ. Andersen.

Í stormi vinda mál upp á sig og verða hin sérkennilegustu.

Stormasöm vika er á enda - hún endaði á því að sjálfur stormurinn fauk.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is


 

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is