leita

ELDRI PISTLAR

Fyrir nokkrum árum hafði ég áhyggjur af því að Guðni Ágústsson gæti ekki ákveðið hvort hann ætlaði að vera trúður eða stjórnmálamaður. Árið 2008 ákvað hann að hætta í pólitík og flutti um sinn á einhvern bar í Evrópusambandinu kenndan við einhverja Klöru, ef ég man rétt. Nokkru seinna varð

Ögmundur Jónasson innanríkis- ráðherra sagði í Kastljósi að fjölmiðlar væru að magna upp átök innan stjórnarinnar og þeir töluðu öll mál upp í deilur. Þegar Sigmar spurði hvort átökin innan Vinstri grænna væru þá fjölmiðlum að kenna svaraði Ögmundur að fjölmiðlar hefðu ekki lært af hruninu og hræddust málefnalegar

02. desember | Sniðugu strákarnir (BJ)
Lúðvík Geirsson og Björn Valur ákváðu að skrá sig í þingsöguna. Björn Valur þurfti þess ekki, en af því að hann náði ekki inn á þinglista VG í Reykjavík var hann gripinn stundaræði. Þess vegna var Illugi svo hissa að BV skyldi ganga með skilti fram hjá ræðupúltinu.


PISTLAR

27/03/2009 | 15:11

Tími Bjarna kemur 2013 (JGH)

Ég geri ráð fyrir að Bjarni Benediktsson verði kosinn nýr leiðtogi Sjálfstæðis- flokksins um helgina. En hans bíður tröllvaxið verkefni; að byggja flokkinn upp og auka vinsældir hans í mjög svo stuttri kosningabaráttu. Flokkurinn verður helst að fá 35% fylgi í komandi Alþingiskosningum svo Bjarni tryggi sig í sessi sem leiðtogi. Einhver kynni að segja að 30% væru í lagi fyrir hann, jafnvel kalla það varnarsigur. En 25% fylgi, eins og flokkurinn mælist núna með, gerði Bjarna mjög erfitt fyrir. Það væri jafnvel hægt að túlka það sem persónulega útreið fyrir hann þótt jábræður hans segðu eflaust að þetta væri ekki honum að kenna heldur bankahruninu og stjórnarsetu flokksins í átján ár.

Staðan er þessi: Það bendir ekkert til annars en að Samfylking og Vinstri grænir myndi næstu ríkisstjórn og það án aðstoðar Framsóknarflokksins sem horfir mjög til vinstri um þessar mundir. Það verður vinstri stjórn; eingöngu spurning hvort hún verður tveggja eða þriggja flokka. Þessir flokkar munu halda Sjálfstæðisflokki utan við næstu stjórnarmyndun. Þeir hafa einsett sér það og ástarbréfin ganga á milli Vinstri grænna og Samfylkingar. Sigmundur Davíð hefur ekki fengið „loveletter“ og kallar  Samfylkinguna því „loftbóluflokk“.

Jóhanna Sigurðardóttir, sem verður 67 ára í haust og þar með löggiltur pensjónisti, verður næsti forsætisráðherra. Jóhanna sagði nýlega að hún hefði í upphafi þessa kjörtímabils litið á þetta sem sitt síðasta kjörtímabil; hún hefði gert ráð fyrir að draga sig í hlé frekar en að búa sig undir sín mestu átök sem stjórnmálamaður. Jóhanna verður hyllt á landsfundi Samfylkingar um helgina sem nýr formaður flokksins. Þar er mesta spennan um varaformennskuna. Sú kosning er hin raunverulega formannskosning.

Steingrímur J. Sigfússon, sem verður 54 ára í sumar, er enn í fullu fjöri þótt margur vinstri græninginn hafi verið farinn að líta í kringum sig og skima eftir nýjum formanni þegar góðærið stóð sem hæst. Steingrímur hefur setið samfellt á þingi í 26 ár og verður örugglega áfram fjármálaráðherra í nýrri vinstri stjórn.

En hvaða möguleika á þá Bjarni Benediktsson í stöðunni? Sárafáa. Hann verður að una því að hans tími komi í kosningunum 2013. Þess vegna skiptir það hann svo miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn fái 35% fylgi í kosningunum því það yrði afgerandi byr fyrir Bjarna til að vinna heimavinnuna og byggja flokkinn upp á næstu árum. Spurningin er auðvitað hvort Bjarni og sjálfstæðismenn hafi þolinmæði í það verk – svo vanur er flokkurinn stjórnarsetu. En það skiptir öllu máli fyrir Bjarna að nýta tímann vel til að endurnýja andann í flokknum, innleiða frískleg vinnubrögð og gera upp við fortíðina. Því fyrr, því betra.

Ef til vill verða stjórnarslit og kosningar áður en 2013 rennur upp. Sú vinstri stjórn, sem tekur við eftir kosningarnar, mun eiga mjög erfitt verk fyrir höndum og hún gæti hæglega sprungið eftir tveggja til þriggja ára setu. Í raun hefur núverandi vinstri stjórn ekki gert neitt afgerandi í efnahagsmálum þótt hún hafi frísklegt yfirbragð sem gefur henni fylgi í könnunum. Hún hefur ekki komið með neitt örvandi útspil til að hleypa lífi í atvinnu-lífið enda svosem haft lítinn tíma til. Hér er ennþá mesta kreppa í heimi, hæstu vextir, heftandi verðtrygging og hörð gjaldeyrishöft.

Hugarfarið og andrúmið skiptir máli eftir næstu kosningar. Það verður ekki til að hleypa lífi í atvinnu-lífið og blása fólki baráttuanda í brjóst þegar ný vinstri stjórn byrjar að hækka skattprósentu á einstaklinga (sem mun hugsanlega leiða til minni skatttekna).

Þegar rætt er um pólitík og efnahagsmál endar yfirleitt öll umræða í öngstræti ónýtrar krónu. Menn komast ekki lengra. Þess vegna er það eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar að ákveða að skipta um gjaldmiðil því það ferli tekur tíu ár. Ekki virðist mikill áhugi innan flokkanna að taka þá ákvörðun þótt atvinnulífið hrópi hátt eftir þeirri niðurstöðu.

Leppstjórnir. Annars má velta því fyrir sér hvort kosningarnar 25. apríl skipti svo miklu máli. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar í raun landinu. Núverandi stjórn er leppstjórn sjóðsins og næsta vinstri stjórn verður það líka. Þjóðin er kefluð í spennutreyju þessa sjóðs sem hamlar frekar en hjálpar á meðan hann heldur hér uppi hæstu vöxtum í heimi í hörðustu kreppu í heimi. Mafían vinnur ekki einu sinni svona.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is