leita

ELDRI PISTLAR

23. nóvember | Spjallað við bændur (BJ)
Að undanförnu hef ég farið víða og talað um Evrópusambandið og málefni tengd því. Í Garðabæ, á Akureyri, á Selfossi og í Reykjavík. Mér finnst umræðan hafi verið málefnalegri en oft áður. Fólk spyr vegna þess að það vill vita en ekki bara til þess að klekkja á ræðumanni

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins er málefnalegur að vanda þessa helgina. Hann er sem kunnugt er höfundur frasans að „kíkja í pakkann“ en vitnar nú í hinn þekkta rithöfund Orwell. Fyrirsögnin er einmitt tekin úr Reykjavíkurbréfsins, en höfundur mun vera sérfræðingur á þessu sviði. Sumum kann að þykja textinn í

29. desember | Menn ársins 2009 (JGH)
Hér kemur ræða sem ég flutti fyrir hönd dómnefndar í veislu á Hótel Sögu þegar Frjáls verslun útnefndi feðgana í Fjarðarkaupum menn ársins 2009 í íslensku atvinnulífi; þá Sigurberg Sveinsson og syni hans Svein og Gísla Þór. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra afhenti viðurkenningarnar. Gissur Páll Gissurarson tenor söng nokkur lög.


PISTLAR

09/02/2004 | 00:00

Verkefni við hæfi þingmanna (BJ)
Stjórnmálamenn hafa nær einróma ákveðið að koma í veg fyrir kaup KB banka á SPRON. Á sama tíma er Landsbankinn að seilast til áhrifa í Íslandsbanka án þess að nokkrum alþingismanni detti í hug að hreyfa legg eða lið. En hvers vegna skyldu þeir taka þessa afstöðu? Miðað við fyrstu yfirlýsingar ráðherra, bæði viðskiptaráðherra og forsætisráðherra, virtist sem kaupin yrðu ekki stöðvuð. Í Morgunblaðinu var talað við Valgerði á Þorláksmessu og þar sagði:

„ÞETTA mál er í raun ekki á mínu borði, heldur eru þetta hlutir sem eru að gerast úti á markaðinum.
Hins vegar get ég sagt að mér finnst allt annar svipur á þessu heldur en var í fyrrasumar. Þarna virðist vera samvinna um málið á milli Kaupþings Búnaðarbnaka og SPRON og ekki annað að sjá en það sé samstaða hjá stjórn SPRON að vilja láta þetta ganga eftir. Það finnst mér vera mikið atriði," segir Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Hún segir það hafa verið viðbúið að dregið gæti til tíðinda í málefnum sparisjóðanna í kjölfar breytinga á lögum um þá. „Eftir að Fjármálaeftirlitið gaf þann úrskurð að það væri heimilt að selja stofnfjárbréf á yfirverði þá var nokkuð ljóst að það gæti dregið til tíðinda. Þótt sú lagasetning sem átti sér stað í fyrra, hafi gengið nokkuð langt í að „verja" sparisjóðina, ef svo má segja, þá verður það auðvitað ekki tryggt af hálfu löggjafans hvað varðar rekstrarform og rekstur ef stofnfjáreigendur eru sammála um að vilja breytingar. Eins þegar lögin voru sett um að heimila hlutafjárvæðingu þá er þar gefin ákveðin leið til þess að breyta sparisjóðunum," segir Valgerður Sverrisdóttir."

Ekki er gott að segja hvað hefur breyst nema ákveðnir sparisjóðamenn í héraði hafa snúist gegn frumvarpinu. Margir hafa núið Pétri Blöndal því um nasir að hann væri að hugsa um sölu á sparisjóðnum í eiginhagsmunaskyni. Þó mun það sönnu nær að það séu miklu meiri prívathagsmunir manna víða um land að þeir hafi sporslur í „sínum" sparisjóði.  Það er því mjög ósanngjarnt að bera Pétri á brýn eiginhagsmunavörslu, því eins og hann hefur sjálfur bent á að hann meira upp úr því persónulega að vera stjórnarmaður í SPRON um langa framtíð en að selja.

Líklega hafa þingmenn kveðið upp dauðadóm yfir sparisjóðakerfinu með því að samþykkja enn breytingar á lögum um þá. Samstarf milli þeirra mun minnka enn og þeir munu í raun verða eins konar viðhengi ákveðinna banka, sem munu hins vegar ekki þurfa að greiða neitt fyrir þá. Viðskiptabankarnir munu bjóða sparisjóðunum betri kjör en Sparisjóðabankinn getur boðið og þannig líður kerfið smám saman undir lok í raun. Þetta þýðir ekki að sparisjóðirnir séu illa reknir, þeir eru bara minni en bankarnir, sem geta haft ráð þeirra í hendi sér ef þeim sýnist.

Á sama tíma og sagt er frá því að SPRON málið sé til lykta leitt heyrist minna af öðru máli sem hefur miklu alvarlegri áhrif á hag neytenda ef af yrði. Landsbankinn hefur verið að auka hlut sinn í Íslandsbanka, ljóst og leynt. Bankinn sjálfur á 4% hlut í Íslandsbanka og eftir viðskipti á föstudaginn var á Burðarás 5,2%. Samtals eru þetta 9,2%. Fréttablaðið, sem áður hefur sýnt að það hefur góð tengsl í innsta hring Landsbankans, hikar hins vegar ekki við að bæta hlut barna Werners Rasmussonar við Landsbankann og kemst þannig að því að hlutur bankans sé í raun um 15% og hann ætli sér þar áhrif. Þessi frásögn er líklegri en það sem kemur fram í Morgunblaðinu 7. febrúar:

„Spurður að því hvort ætlunin sé að eiga bréfin í Íslandsbanka áfram segir Magnús [Gunnarsson, formaður Eimskipafélagsins] að svo sé, og bendir á að það sé ekkert nýtt að Eimskipafélagið eigi hlut í Íslandsbanka, félagið hafi árum saman átt hlutabréf í bankanum og forverum hans.
Inntur eftir því hvort Eimskipafélagið muni sækjast eftir því að taka þátt í stjórn Íslandsbanka segir Magnús að engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt, enda kaupin nýafstaðin og engar vangaveltur verið uppi þar að lútandi."

Í greinargerð með tillögu til aðalfundar Landsbankans sem haldinn verður síðar í febrúar segir:

Bankaráð telur brýnt að áfram verði unnið að hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði með auknu samstarfi og samruna milli banka, sparisjóða og tryggingafélaga, sérhæfðra fjárfestingarfélaga á markaði og ennfremur að Landsbankinn haldi áfram að kanna mögulega aukningu á starfsemi erlendis, m.a. með kaupum á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum.

Bankaráð Landsbanka Íslands hf. hefur mótað þá stefnu að Landsbankinn verði öflugur þátttakandi í slíkum aðgerðum og eigi kost á að gefa út nýtt hlutafé vegna kaupa á eignum. Rétt er talið að auka svigrúm bankaráðs til slíkra aðgerða. 

Stefna bankans er því ljós. Ef Landsbankinn eignast ráðandi hlut í Íslandsbanka yrði það mikið áfall fyrir neytendur og ólíku saman að jafna við kaup KB á SPRON, sem hefðu haft hverfandi áhrif á hag almennings. Hins vegar verður að telja mjög ólíklegt að stjórnmálamenn hafi hugrekki til þess að bregðast við þessari yfirtöku. Eigendur sparisjóðanna eru margir og smáir og lítið að óttast að valta yfir þá.

Benedikt Jóhannesson

 

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is